Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fjölnir 3 - 1 Víkingur R. | Mikilvægur sigur Fjölnis

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Úr leik liðanna fyrr í sumar.
Úr leik liðanna fyrr í sumar. vísir/stefán
Fjölnir náði í gríðarlega mikilvæg stig í fallbaráttunni í Pepsi deild karla með 3-1 sigri á Víkingi Reykjavík í Grafarvoginum í dag.

Leikurinn fór afskaplega rólega af stað og dróg ekki til tíðinda fyrr en á 31. mínútu þegar Róbert Örn Óskarsson braut á Marcusi Solberg Mathiasen og fékk dæmda á sig vítaspyrnu. Þórir Guðjónsson fór á punktinn fyrir heimamenn og skoraði af öryggi.

Það lifnaði lítið yfir leiknum þrátt fyrir að Fjölnir væru komnir yfir. Víkingar voru þó aðeins hættulegri í sínum sóknum og þurfti Þórður Ingason nokkrum sinnum að bregðast við til að halda sínum mönnum í forystu.

Á lokamínútu fyrri hálfleiks braut Ingimundur Níels Óskarsson af sér innan eigin vítateigs og Víkingar fengu vítaspyrnu. Ívar Örn Jónsson steig upp og skoraði úr spyrnunni og jafnaði leikinn fyrir gestina. Það reyndist síðasta spyrna hálfleiksins og liðin gengu jöfn til leikhlés.

Seinni hálfleikurinn byrjaði eins og sá fyrri, það var lítið í gangi inn á vellinum. Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Fjölnis, gerði svo tvöfalda breytingu á liði sínu á 70. mínútu og setti Birni Snæ Ingason og Ægi Jarl Jónasson inn á og má segja að sú skipting hafi ráðið úrslitum leiksins.

Birnir Snær skoraði frábært mark aðeins fimm mínútum eftir að hann kom inn á þar sem hann þrumaði boltanum í netið af löngu færi. Hann var svo aftur á ferðinni á 79. mínútu þegar hann fiskaði aukaspyrnu á góðum stað sem úr varð mark.

Fleiri urðu mörkin ekki í leiknum og úr varð 3-1 sigur Fjölnis.

Afhverju vann Fjölnir?

Innkoma Birnis Snæs og Ægis Jarls réði úrslitum. Þeir voru gríðarlega ferskir og börðust mjög vel, og svo var það frábært framtak Birnis sem tryggði þeim úrslitamörkin. Áður en þeir komu inn á hafði lítið verið í gangi og stefndi allt í bragðdauft jafntefli.

Hverjir stóðu upp úr?

Þórður Ingason stóð sig vel í marki Fjölnis og átti nokkrar góðar vörslur, og sama má í raun segja um kollega hans í hinu markinu, Róbert Örn Óskarsson. Davíð Örn Atlason var einnig sterkur í liði Víkinga.

Hvað gekk illa?

Báðum liðum gekk illa að spila góðan fótbolta megnið af leiknum. Það var ekkert að gerast fyrsta klukkutímann, þó bæði lið hefðu átt eitt og eitt færi. Það var mikil barátta, en leikurinn var ekki skemmtilegur áhorfs.

Hvað gerist næst?

Við tekur landsleikjahlé og eru því tvær vikur í næstu leiki. Fjölnir fer til Ólafsvíkur laugardaginn 9. september og mætir heimaliði Víkings.

Reykjavíkurvíkingarnir eiga hins vegar erfiða heimsókn í Garðabæinn sunnudaginn 10. September.

Maður leiksins var Birnir Snær Ingason. Einkunnir allra leikmanna má sjá undir „Liðin“ hér að ofan.

Ágúst Gylfason var ánægður með sína menn í dag.vísir/ernir
Gústi Gylfa: Búinn að bíða eftir þessu lengi

„Þetta var kærkomið, kominn tími á að fá þrjú stig. Erum búnir að spila síðustu fjóra leiki og fá eitt stig og ekki búnir að vera sáttir með okkar spilamennsku. En við gerðum vel í dag og fengum þrjú stig sem er kærkomið í þessari baráttu sem við erum að fara í,“ sagði Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Fjölnis, eftir leikinn.

„Mikil barátta og við áttum nokkur góð færi í leiknum en það voru móment sem Víkingarnir höfðu líka, þeir hefðu getað komist vel inn í leikinn, en það var barátta í liðinu og við gerum mjög vel í flestum þessum mörkum sem við skorum.“

„Frábær frammistaða hjá liðinu, ég var búinn að bíða eftir þessu. Frábær sigur,“ sagði Ágúst.

Tvöfalda skiptingin sem réði úrslitum leiksins var fyrir fram ákveðinn samkvæmt þjálfaranum.

„Við setum tvo mjög spræka stráka inn og þeir breyta aðeins leiknum. Þetta var meðvitað, við ætluðum að fá þessa stráka inn á og þeir voru munurinn í dag. Þeir börðust mjög vel og gerðu það að verkum að við sigruðum hér í dag,“ sagði Ágúst.

Bæði lið fengu vítaspyrnu í fyrri hálfleik og hafði Ágúst ekkert út á það að setja. „Ég held það hafi bæði verið víti, klárlega.“

Logi var ekki sáttur með úrslitin.vísir/stefán
Logi Ólafs: Mín skoðun þarf ekki að endurspegla mat dómarastéttarinnar

„Vonbrigði með að hafa ekki náð betri úrslitum,“ voru fyrstu viðbrögð Loga Ólafssonar, þjálfara Víkings, eftir leikinn. „Við vorum kannski klaufar í þeirra marki, við fáum á okkur víti sem kemur ekki upp úr marktækifæri sem þeir eru að skapa. Mér finnst við hefðum átt að koma í veg fyrir mark númer tvö og þriðja markið er úr föstu leikatriði sem við eigum að gera betur í.“

„Fyrst og síðast verðum við að gera betur í að halda markinu hreinu og nýta þau marktækifæri sem við fáum betur.“

„Ég held að það sem við fengum var víti,“ sagði Logi aðspurður út í vítaspyrnudómana. „Þegar markmaðurinn er á undan í boltann og sparkar honum og svo kemur sóknarmaðurinn og fer í fótinn á honum, mér finnst það voðalega hart að dæma víti á slíkt. Það er mín skoðun en þarf ekki að endurspegla mat þjóðarinnar eða dómarastéttarinnar.“

Frammistaða Víkings var ekki sú besta í dag, en Logi var heilt yfir ekki svo ósáttur. „Það var mjög margt gott sem við gerðum í leiknum. Við erum því miður ekki heppnir í þeim færum sem við fáum og Þórður varði vel. Það var margt gott í þessu en líka margt mjög slæmt.“

Birnir Snær: Eigum að ná í stig í næstu leikjum

„Hún er alltaf geggjuð,“ sagði Birnir Snær Ingason, spurður út í tilfinninguna við að koma af bekknum og skora mark.

„Gústi sagði við mig að ég ætti að gera ákveðna hluti þegar ég kom inn á og ég reyndi að gera það. Held ég hafi gert þá ágætlega og er mjög sáttur.“

„Frammistaðan var betri en í síðasta leik, sem var ekki nógu góður, við vorum inni í leiknum allan tímann. Hann fór að opnast undir lokin og við nýttum okkur það,“ sagði Birnir.

Fjölnir á erfitt prógramm eftir en Birnir segir stemminguna í hópnum góða. „Það er alltaf góð stemming í klefanum. Næstu leikir eru gríðarlega mikilvægir og við eigum að reyna að ná einhverjum stigum þar.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira