Erlent

Stefnt að bílalausri miðborg Kaupmannahafnar

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Danska leyniþjónustan telur hættu á hryðjuverkum. Fréttablaðið/NordicPhotos
Danska leyniþjónustan telur hættu á hryðjuverkum. Fréttablaðið/NordicPhotos
Danska leyniþjónustan vill að nánast öll bílaumferð verði bönnuð í gamla miðbænum til að verjast hryðjuverkum. Nái tillaga leyniþjónustunnar fram að ganga verður svæði sem nær frá Tívolíinu að Kóngsins Nýjatorgi og síkjunum að höfninni lokað öllum nema sjúkrabifreiðum, slökkviliði og öðrum bifreiðum með sérstakt erindi.

Að mati leyniþjónustunnar gerir mikill fjöldi gangandi og hjólandi vegfarenda á litlu svæði gamla miðbæinn að skotmarki árása á borð við hryðjuverkaárásirnar í Barcelona, Nice og Berlín. Jafnframt hafa almannavarnir varað við því að borgin sé vanbúin til að bregðast við afleiðingum slíkrar árásar.

Borgarstjórn Kaupmannahafnar leitar nú leiða til að bregðast við ábendingum leyniþjónustunnar og almannavarna og tryggja öryggi miðborgarinnar, án þess þó að fórna lífsgæðum íbúanna. Markmiðið er að halda tjóni af völdum hugsanlegra hryðjuverka í lágmarki, fremur en að koma í veg fyrir þau með öllu. Nota megi tré og ýmiss konar mannvirki til þess að gera nánast ómögulegt að valda miklum skaða með ökutæki, án þess að skaða ásýnd gamla bæjarins. Steypublokkir sem nú loka Strikinu verði til dæmis teknar og settar hindranir á borð við bekki og reiðhjólastæði, sem þjóni varnarhlutverki en séu jafnframt bæjarprýði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×