Innlent

Vilja takmarka fjölda hótela í 101: „Ekkert sérstaklega gaman að fá nýja nágranna í hverri viku“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hótelum og gististöðum hefur fjölgað í takt við fjölgun erlendra ferðamanna. Íbúasamtök í borginni vilja takmarka fjölda hótela í miðbænum en myndin sýnir reit við Lækjargötu þar sem hótel á vegum Íslandshótela mun rísa.
Hótelum og gististöðum hefur fjölgað í takt við fjölgun erlendra ferðamanna. Íbúasamtök í borginni vilja takmarka fjölda hótela í miðbænum en myndin sýnir reit við Lækjargötu þar sem hótel á vegum Íslandshótela mun rísa. vísir/andri marinó

Íbúasamtök miðbæjar, Vesturbæjar og Hlíða, það er póstnúmera 101, 107 og 105, hafa tekið höndum saman í baráttunni gegn fjölgun hótela í miðborg Reykjavíkur. Íbúarnir vilja setja kvóta á fjölda hótela og gististaða í 101 og takmarka hann þannig en eins og staðan er í dag er aðeins kvóti á afmörkuðu svæði í Kvosinni.

„Við viðjum bara sjá kvóta fyrir allan miðbæinn, það er 101, og svo viljum við að ákvæði um að það að það megi vera hótel við allar aðalgötur verði tekið burt fyrir 101,“ sagði Birgir Þröstur Jóhannsson, sem á sæti í stjórn Íbúasamtaka Vesturbæjar, í umfjöllun um þessi mál í Bítinu á Bylgunni í morgun. Sem dæmi um aðalgötur tók hann Túngötu, Ægisgötu og Mýrargötu.

Fækkun íbúa breyting til hins verra
Ragnhildur Zoëga, sem á sæti í stjórn Íbúasamtaka miðborgarinnar, sagði fækkun íbúa í miðbænum vera breytingu til hins verra og að hótel og AirBnb-íbúðir spili inn í þá fækkun.

„Þegar það fækkar um 300 íbúa á milli ára þá er það ansi há tala. Íbúar á Grettisgötu, þar sem annað hvert hús er AirBnb eða hótel, hafa til dæmis kvartað. Þetta er náttúrulega ekkert sérstaklega skemmtilegt og nágrannasamfélög verða skrýtin,“ sagði Ragnhildur.

Birgir tók undir þetta og sagði andrúmsloftið hafa breyst og þá sérstaklega fyrir þá sem eru ekki lengur með nágranna.

„Það er ekkert sérstaklega gaman að fá nýja nágranna í hverri viku. Maður vill kynnast fólki, mynda sambönd. Það er það sem er áhugavert við að búa í þéttbýli. Fjölbreytnin er skemmtilegt og ferðamenn eru partur af fjölbreytninni en umhverfið má ekki verða einsleitt.“

Nálgast má frekari upplýsingar um framtakið á Facebook-síðunni No More Hotels in 101.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.