Viðskipti innlent

Búast við minni hækkunum á húsnæði

Fasteignaverð í Breiðholti hefur hækkað töluvert undanfarið ár. Nú er búist við að það taki að hægja á hækkunum.
Fasteignaverð í Breiðholti hefur hækkað töluvert undanfarið ár. Nú er búist við að það taki að hægja á hækkunum. vísir/andri marinó
Eftir miklar húsnæðisverðshækkanir að undanförnu eru teikn á lofti um að farið sé að hægja á húsnæðismarkaðnum. Þetta kemur fram í uppfærðri hagvaxtarspá greiningardeildar Arion banka. Þar kemur fram að auglýstum fasteignum hefur fjölgað, ásett fermetraverð farið lækkandi og fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu lækkað í verði á milli mánaða í júní, í fyrsta skipti frá 2015.

„Við gerum ráð fyrir að hægja taki verulega á húsnæðisverðshækkunum á komandi misserum, enda hefur húsnæðisverð hækkað talsvert umfram laun og ráðstöfunartekjur að undanförnu, sem og að útlit er fyrir mikilli framboðsaukningu,“ segir í spá greiningadeildarinnar.

Gert er ráð fyrir fyrir kröftugum hagvexti í ár, eða 5,3%, en að hægja taki á vextinum þegar fram í sækir. Einkaneyslan verður ein helsta driffjöður hagvaxtarins, studd áfram af litlu atvinnuleysi og kaupmáttaraukningu og þjónustuútflutningi.

Greiningardeildin gerir ráð fyrir að verðbólgan taki að stíga á næsta ári og fari hæst í 3,2% í ársbyrjun 2019. Gert er ráð fyrir minni verðbólgu en áður var talið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×