Sport

21 árs Norðmaður stal senunni með óvæntu gulli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Warholm trúði ekki eigin augum þegar hann kom í mark í gær.
Warholm trúði ekki eigin augum þegar hann kom í mark í gær. Vísir/Getty
Öllum að óvörum náði Norðmaðurinn Karsten Warholm að vinna gull í 400 m grindahlaupi á HM í frjálsum í London í gær. Sigur Warholm var sá fyrsti hjá Norðmanni á HM í frjálsum í níu ár, síðan að Andreas Thorkildsen vann gull í spjótkasti.

Warholm er einungis 21 ára og er fyrrum tugþrautarkappi. Tímabilið er hans fyrsta þar sem hann keppir eingöngu í 400 m grindahlaupi og það bar árangur í gær.

Kerron Clement, Ólympíumeistarinn í greininni, þurfti að játa sig sigraðan í gær en viðbrögð Warholm voru ósvikin þegar hann kom í mark í gær.

„Ég trúi þessu í alvörunni ekki,“ sagði Warholm sem er orðin að þjóðarhetju í Noregi og aðalumfjöllunarefni fjölmiðla þar í landi. „Ég hef lagt svo mikið á mig en ég veit ekki hvað ég hef gert. Þetta er ótrúleg tilfinning - ég er heimsmeistari.“

Warholm spilaði knattspyrnu þar til hann varð fjórtán ára en þá tóku frjálsíþróttirnar við. Í fyrstu þótti hann mikið efni í stökkgreinum en árið 2015 var tekin ákvörðun um að einbeita sér að 400 m grindahlaupi.

Hann vann sinn riðil í undanrásum í greinni á Ólympíuleikunum í fyrra, en komst ekki í úrslitin. Nánar er fjallað um feril hans í frétt VG.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×