Lífið

Ólafur F. Magnússon sendir frá sér tilfinningaþrungið myndband

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Ólafur segir að lagið sé bæði ástarljóð og sorgarsöngur
Ólafur segir að lagið sé bæði ástarljóð og sorgarsöngur
Ólafur F Magnússon fyrrverandi borgarstjóri hefur sent frá sér nýtt lag sem ber titilinn Við Ræningjatanga. Myndband við lagið er komið í spilun á Youtube en Ólafur samdi sjálfur bæði lag og texta.

Höfundur samdi ljóðið í mars árið 2014 og lagið skömmu síðar. Það var hljómsett og hljóðritað af Vilhjálmi Guðjónssyni, árið 2015. Ólafur syngur lagið sjálfur en Gunnar Þórðarson sér um gítarútsetninguna og gítarleikinn. Myndbandið má finna hér að neðan. 

Ólafur sendi lagið Fjallkonan í undankeppni Eurovision árið 2014 og gaf einnig út lögin Gott og göfugt hjarta og Ferðabæn. Myndbandið við lagið Við Ræningjatanga var tekið upp fyrr í sumar í Vestmannaeyjum við Ræningjatanga, þar sem ráðist var inn í Heimaey í Tyrkjaráninu. Friðrik Grétarsson sá um  bæði kvikmyndatöku og klippingu. Ólafur segir hafa flutt lagið með tár á hvarmi, hryggur yfir örlögum síns fólks í Eyjum.

Í samtali við Vísi segir Ólafur að lagið sé bæði „Ástarljóð til Vestmannaeyja og sorgarsöngur yfir Tyrkjaráninu.“

Ljóðið Við ræningjatanga hljóðar þannig:

Hunsuð voru hædd og kvalin, 

hneppt í þrældóm yfir sæ. 

Örlög margra ætíð falin, 

ég aldrei þetta skilið fæ. 

Munum þessa menn og hrundir, 

máttur gleymsku rammur er. 

Um Vestmannaeyja víðu grundir, 

varðveit þjáning; fólksins ber.  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×