Innlent

Gríðarleg stemning á HM íslenska hestsins

Telma Tómasson í Oirschot skrifar

Mörg hundruð Íslendingar eru komnir til Oirschot í Hollandi þar sem heimsmeistaramót íslenska hestsins stendur nú yfir. Stemningin er gríðarlega góð og er mikið fagnað þegar íslensku keppendurnir koma í braut.

Stöðugur straumur er af fólki inn á keppnissvæðið, en mótið nær hámarki þegar úrslit verða riðin um helgina og er búist við að þá verði þétt setið á áhorfendapöllunum, sem taka um tíu þúsund manns í sæti.

Keppt er í tölti í dag, sem er einn af hápunktum heimsmeistaramótsins, og þar ætla íslensku keppendurnir sér stóra hluti. Allt ætlaði um koll að keyra í íslendingastúkunni þegar lag hljómsveitarinnar Queen, I wan't it all, ómaði undir sýningu Guðmundar Björgvinssonar á Straumi frá Feti. Knapi og hestur stóðu undir væntingum og tryggðu þeir sér öruggt sæti í úrslitum, sem fara fram á sunnudag.

Um 300 hestar frá 19 löndum eru skráðir til leiks ásamt knöpum sínum og búist er við að allt að 50 þúsund manns sæki mótið vikuna sem það stendur yfir. Heimsmeistaramót íslenska hestsins er sent út í beinni útsendingu á oz.com.

Sjá má myndskeið af stemningunni á HM og sýningu Guðmundar og Straums á meðfylgjandi myndbandi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.