Körfubolti

Pawel vill að KKÍ hætti að mismuna leikmönnum eftir þjóðerni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leik í Domino's deild karla í vetur.
Úr leik í Domino's deild karla í vetur. vísir/anton

Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, vill að KKÍ hætti að mismuna leikmönnum eftir þjóðerni þeirra og segir að stjórnvöld eigi að beita sér í málinu.

Fyrr í sumar bárust fréttir af því að KKÍ bryti reglur EES með því að leyfa aðeins einn erlendan leikmann inni á vellinum í hvoru liði í einu.

Í pistli á heimasíðu sinni furðar Pawel sig á þessari svokölluðu 4+1 reglu sem hefur verið í gildi undanfarin ár.

Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar.

„Körfuknattleikssamband Íslands er með hámark á fjölda erlendra leikmanna á vellinum. Hámarkið er einn,“ skrifar Pawel.

„Þetta er augljóst brot á EES samningnum. Króati sem vill fá vinnu hjá íslensku körfuboltaliði verður að keppa um eina lausa sætið við Bandaríkjamenn og alla aðra. Íslendingur hefur miklu meiri séns á að komast í liðið. Það er augljóst brot á EES-samningnum.“

Sú undantekning er á 4+1 reglunni að erlendir leikmenn sem hafa haft búsetu hér á landi í þrjú ár teljast sem Íslendingar. Pawel segir þetta litlu skárra.

„Í fyrsta lagi er enginn að fara að koma til Íslandi til að spila ef hann þarf fyrst að bíða í 3 ár eftir að fá að gera það. Í öðru lagi er þessi búsetukrafa ekki gerð þegar Íslendingar eiga í hlut svo þetta er augljóst brot á EES-samningnum. KKÍ má þetta vera ljóst og sambandið hlýtur að vita það. Enda er Eftirlitsstofnu EFTA búin að lýsa því yfir að þetta sé brot,“ skrifar Pawel.

Hann segir að stjórnvöld eigi að biðja KKÍ um að breyta þessum reglum sínum. Pawel segir jafnframt að ef það gangi ekki eigi að setja lög sem leggi bann við að sett séu hámörk á fjölda EES-borgara í keppnisleikjum.

Pistil Pawels má lesa með því að smella hér.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira