Skoðun

Markmiðið er að veita sjúklingum svigrúm

Teitur Björn Einarsson skrifar
Ívilnanir í skattalögum eru ávallt vandmeðfarnar. Af nýlegum fréttum að dæma, af höfnun skattayfirvalda um skattívilnun vegna veikinda manns með krabbamein, er fullt tilefni til að yfirfara lög og reglur sem gilda um heimild Ríkisskattstjóra til að veita skattaívilnun vegna veikinda og skoða nánar skattframkvæmdina í slíkum málum.

Gæta þarf að því að lögin veiti ekki Ríkisskattstjóra of víðtækt svigrúm til matskenndra ákvarðana. Í almennri skattframkvæmd er sérstaklega mikilvægt að tryggt sé að samræmis og jafnræðis sé gætt. Ekkert í lögum gefur til að mynda Ríkisskattstjóra heimild til að líta til efnahags einstaklinga við ákvarðanir um ívilnanir þótt líta eigi til gjaldþols. Í lögunum er kveðið á um að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um nánari skilyrði um veitingu ívilnana. Mér vitandi hefur það ekki verið gert og er bagalegt að um jafn matskennda stjórnvaldsákvörðun skuli ekki gilda almenn stjórnvaldsfyrirmæli til fyllingar lögunum.

Þá er ástæða til að endurskoða þau skilyrði sem sett eru fyrir heimild til ívilnunar í lögum um tekjuskatt. Þegar um er að ræða slys eða veikindi er skilyrði fyrir ívilnun að slíkt hafi skert gjaldþol manns verulega. Ekki er skilgreint frekar hvað telst veruleg skerðing á gjaldþoli. En þegar um önnur ívilnunarefni er að ræða, eins og menntun barns, framfærslu vandamanna eða eignartjón, þá er áherslan á þann kostnað sem fallið hefur á einstaklinginn af þeim orsökum. Á þessu er nokkur munur og æskilegt væri að meira samræmis gætti í lagaákvæðinu að þessu leyti.

Í áratugi hefur löggjafinn talið ástæðu til að hafa í lögum heimild til ívilnunar vegna alvarlegra veikinda og slysa. Að sama skapi er ljóst að slík heimild er undantekning frá almennri skattframkvæmd og löggjafinn hefur ætlast til þess að farið yrði varlega í sakirnar við veitingu slíkra ívilnana. Það gefur þó skattayfirvöldum ekki heimild til að túlka hin matskenndu tilvik svo svakalega þröngt að markmið laganna, sem er að veita sjúkum örlítið svigrúm frá íþyngjandi skattkröfum ríkisins, verði að engu haft.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×