Erlent

Árás á tölvukerfið vegna kosninganna í Kenía mistókst

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Þessir Keníamenn voru afar ósáttir við úrslit forsetakosninganna.
Þessir Keníamenn voru afar ósáttir við úrslit forsetakosninganna. Nordicphotos/AFP
Erlendir eftirlitsaðilar hafa lýst því yfir að ekki hafi verið brögð í tafli í kenísku kosningunum í vikunni. Nærri öll atkvæði höfðu verið talin í gærkvöldi og féllu rúm 54 prósent talinna atkvæða í forsetakosningunum í skaut sitjandi forseta, Uhuru Kenyatta. Alls kusu 45 prósent Raila Odinga en enginn annar fékk meira en hálft prósent atkvæða.

Odinga lýsti því yfir á miðvikudag að kosningakerfið hefði verið hakkað og að allt liti út fyrir að um mesta kosningasvindl í sögu Keníu væri að ræða. Óháð kosningastjórn Keníumanna (IEBC) lýsti því í kjölfarið yfir að reynt hafi verið að gera árás á tölvukerfið en að sú árás hafi mistekist.

Bandaríski eftirlitsaðilinn Carter­ Center, með fyrrverandi utanríkisráðherrann John Kerry í fararbroddi, fylgdist með kosningunum. Sagði Kerry á blaðamannafundi í höfuðborginni Naíróbí í gær að ekkert gæfi til kynna að um kosningasvindl væri að ræða. Kosningakerfi IEBC væri gegnsætt og ferlið öruggt.

Samveldið, samtök ríkja sem tilheyrðu breska heimsveldinu, fylgdist einnig náið með kosningunum. Forsprakki eftirlitsteymis þess, John Mahama sem áður var forseti Gana, var á sama máli og Kerry. Sagði hann að hrósa bæri Keníumönnum fyrir framkvæmd kosninganna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×