Erlent

Þakkaði Putin fyrir að vísa erindrekum frá Rússlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, þakkaði Valdimir Putin, forseta Rússlands, fyrir að vísa 755 erindrekum Bandaríkjanna frá Rússlandi. Trump sér þar tækifæri til þess að spara peninga.

„Ég vil þakka honum fyrir því við erum að reyna að draga úr launakostnaði og þess vegna er ég þakklátur honum fyrir að reka marga því núna verður launakostnaður okkar minni,“ sagði Trump við blaðamenn nú í kvöld.

Trump sagðist ekki sjá nokkra ástæðu til þess að fjölge erindrekum aftur í Rússlandi á einhverjum tímapunkti. Bandaríkin myndu spara mikið af peningum.

Erindrekunum var vísað frá Rússlandi eftir að Bandaríkin beittu Rússa umfangsmiklum refsiaðgerðum vegna afskipta þeirra af forsetakosningunum í Bandaríkjunum í fyrra og vegna aðgerða þeirra í austurhluta Úkraínu.

Samkvæmt frétt Politico hefur ekki verið ákveðið hvernig staðið verður að fækkun starfsmanna sendiráða og ræðismannsskrifstofum Bandaríkjanna í Rússlandi. Líklegt þykir þó að rússneskum starfsmönnum verði sagt upp. Bandarískir starfsmenn verða líklegast færðir til í störfum sínum.



Politio ræddi við nokkra starfsmenn Utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna sem hafa lýst yfir furðu sinni á ummælum forsetans. Einn sagði ummælin senda hræðileg skilaboð til allra erlenda erindreka Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×