Sport

Tyrkinn kom öllum á óvart

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ramil Guliyev tók gullið í 200 metra hlaupi karla.
Ramil Guliyev tók gullið í 200 metra hlaupi karla. vísir/getty
Ramil Guliyev, 27 ára gamall Tyrki, kom öllum á óvart og vann sigur í 200 metra hlaupi karla á HM í frjálsum íþróttum í London í kvöld.

Guliyev kom í mark á 20,09 sekúndum, 0,02 sekúndum á undan Wayde van Niekerk frá Suður-Afríku og Jereem Richards frá Trínidad og Tóbagó. Van Niekirk vann gull í 400 metra hlaupi en tókst ekki að bæta öðru gulli í safnið í kvöld.

Isaac Makwala frá Botsvana, sem vakti mikla athygli fyrir að hlaupa einn í undanrásunum, fór vel af stað en stífnaði upp á lokametrunum og endaði í 6. sæti.

Úrslitin réðust einnig í þrístökki karla og 400 metra grindahlaupi kvenna í kvöld.

Christian Taylor er þrefaldur heimsmeistari í þrístökki.vísir/getty
Bandaríkjamaðurinn Christian Taylor hrósaði sigri í þrístökki karla og vann þar með sín þriðju gullverðlaun í greininni á HM. Hann er einnig tvöfaldur Ólympíumeistari.

Taylor stökk lengst 17,68 metra. Landi hans, Will Claye, kom næstur en hann stökk 17,63 metra. Nelson Évora frá Portúgal endaði svo í 3. sæti með stökki upp á 17,19 metra.

Í 400 metra grindahlaupi kvenna varð Kori Carter frá Bandaríkjunum hlutskörpust. Hún kom í mark á 53,07 sekúndum. Hennar besti tími í greininni er 52,95 sekúndur.

Dalilah Muhammed frá Bandaríkjunum kom önnur í mark á 53,50 sekúndum og Ristananna Tracey frá Jamaíku varð þriðja á 53,74 sekúndum.

Fyrr í kvöld keppti Aníta Hinriksdóttir í undanrásum í 800 metra hlaupi. Hún komst ekki áfram í undanúrslit.


Tengdar fréttir

Aníta komst ekki í undanúrslit

Aníta Hinriksdóttir komst ekki í undanúrslit á HM í frjálsum íþróttum sem fer nú fram í London.

Hljóp einn og komst í undanúrslit

Isaac Makwala frá Botsvana tryggði sér sæti í undanúrslitum í 200 metra hlaupi karla á HM í frjálsum íþróttum í London nú síðdegis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×