Enski boltinn

Verður Sanchez launahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alexis Sánchez fagnar í leik með Arsenal.
Alexis Sánchez fagnar í leik með Arsenal. vísir/getty

Arsenal hefur lagt fram nýtt samningstilboð til Alexis Sanchez og boðið honum 300 þúsund pund í vikulaun, jafnvirði 41 milljóna króna. Daily Mail fullyrðir þetta í frétt sinni.

Sanchez á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum og hefur þegar hafnað samningstilboði sem hefði tryggt honum 225 þúsund pund í vikulaun. Ef hann tekur nýja tilboðinu yrði hann launahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar.

Hann er sagður vilja spila með liði sem tekur þátt í Meistaradeild Evrópu og hefur verið orðaður við bæði Manchester City og PSG. Sanchez verður ekki með Arsenal í leik liðsins gegn Leicester í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Arsene Wenger, stjóri Arsenal, sagði að það væri vegna tognunar í kviðvöðva.

Samkvæmt fréttinni krafðist Sanchez þess að fá 300 þúsund pund í vikulaun í viðræðum sínum við Arsenal. Nú eigi eftir að koma í ljós hvort hann gangi við tilboðinu nú þegar gengist hefur verið við kröfum hans.

Mesut Özil og Alex Oxlade-Chamberlain eru báðir á sínu síðasta samningsári, rétt eins og Sanchez.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira