Enski boltinn

Coutinho og Gylfi missa báðir að leikjum sinna liða um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Philippe Coutinho og Jürgen Klopp.
Philippe Coutinho og Jürgen Klopp. Vísir/Getty
Philippe Coutinho mun ekki spila með Liverpool-liðinu í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar á morgun þrátt fyrir að forráðamenn félagsins hafi fyrr í dag fullvissað alla um að Brasilíumaðurinn verði áfram hjá félaginu.

Framtíð íslenska landsliðsmannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar hefur verið mikið til umfjöllunar í enskum fjölmiðlum alveg eins og hugsanleg sala Liverpool á Coutinho til Barcelona. Allir búast við því að Gylfi verði orðinn leikmaður Everton áður en glugginn lokar.

Gylfi verður ekki með Swansea City á morgun þrátt fyrir að hafa æft á fullu með liðinu en ástæðan er önnur fyrir fjarveru Philippe Coutinho en hjá íslenska landsliðsmanninum.

Philippe Coutinho glímir við meiðsli í baki sem hafa haldið honum frá æfingum í meira en viku.

„Hann er ekki í boði. Hann hefur ekki æft með okkur síðan á föstudaginn. Það er líka óvissa um hvort hann geti verið með á þriðjudaginn,“ sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool á blaðamannafundi fyrir Watford-leikinn.

Klopp býst því alveg eins við því að Philippe Coutinho geti heldur ekki spilað fyrri leikinn á móti þýska liðinu Hoffenheim í umspilinu um sæti í Meistaradeildinni.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×