Viðskipti innlent

Hagar ráðast í endurkaup á eigin bréfum

Sæunn Gísladóttir skrifar
Hagar reka meðal annars Bónus og Hagkaup.
Hagar reka meðal annars Bónus og Hagkaup. vísir/anton brink
Stjórn Haga hefur ákveðið að ráðast í endurkaup á eigin bréfum í þeim tilgangi að lækka útgefið hlutafé félagsins.

Á aðalfundi Haga sem haldinn var þann 7. júní síðastliðinn var samþykkt að heimila félaginu að kaupa á næstu 18 mánuðum hlutabréf í félaginu fyrir allt að 10 prósent af heildarhlutafé félagsins í þeim tilgangi að koma á viðskiptavakt með hluti í félaginu og/eða til að setja upp formlega endurkaupaáætlun.

Fram kemur í tilkynningu að á grundvelli þeirra samþykktar mun endurkaupaáætlun fara fram sem hefst þann 14. ágúst næstkomandi.

Endurkaupin munu að hámarki nema 25 milljón hlutum eða um 2,13 prósent af útgefnum hlutum í félaginu. Fyrir á félagið 19,2 milljónir eigin hluta eða 1,64 prósent af útgefnum hlutum. Áætlunin mun gilda til 6. Júní á næsta ári og munu kaupin verða framkvæmd í áföngum.

Undanfarið hefur gengi hlutabréfa í Högum lækkaði verulega. Frá opnun Costco í lok maí hefur gengið lækkað um rúmlega 30 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×