Lífið

Pankynhneigð dragdíva sigrar heiminn

Brynhildur Björnsdóttir skrifar
Saman ætla Siggi og Gógó að sigra heiminn.
Saman ætla Siggi og Gógó að sigra heiminn.

Sigurður Heimir er 23 ára, fæddur og uppalinn á Akureyri. „Og þar byrjaði ég í draginu með leikfélagi VMA. Svo stofnaði vinahópurinn minn til dragkeppni Norðurlands og þar tók ég þátt með ýmsa karaktera og vann með atriði þar sem ég var með lög með Lady Gaga. Þá kallaði ég mig Gógó því mig langaði í íslenskt nafn sem myndi samt virka á erlendum markaði. Síðan fannst mér vanta eftirnafn og ég hef alltaf horft á mig sem stjörnu svo ég kalla mig Starr. Með tveimur errum svo það virki eins og nafn!“

Sigurður flutti suður eftir stúdentspróf undir lok sumars 2014 og árið eftir sigraði Gógó Starr svo í Dragkeppni Íslands. Í kjölfarið stofnaði hann DragSúg með Hafsteini Himinljóma Regínusyni og Þórhalli Hafþórssyni. Fyrsta DragSúgskvöldið var haldið í nóvember 2015 og hefur verið mánaðarlega síðan. Sigurður er formaður og rekur batteríið ásamt Hafsteini Himinljóma. „Ég er svo innilega stoltur af DragSúgi. Erlendis er dragsenan eiginlega bara drottningar en við erum bæði mjög ólíkar dragdrottningar, dragkóngar sem eru fáránlega mismunandi, Bio Queens sem eru kvenkyns dragdrottningar og líka mismunandi kynflæðandi (gender fluid) listamenn sem vilja ekki endilega láta skilgreina sig eftir kyni. Gerðu þína list og deildu henni á sviðinu með okkur. Svo framarlega sem hún er skemmtileg máttu vera með.“

Gógó Starr í sínu fínasta pússi enda hátíð í bæ. MYND/ Ben Strothman

Hrífst af einstaklingum
Sigurður kom út þegar hann var sextán ára. „Ég hélt alltaf að ég væri eitthvað sjúklega spes því ég var hrifinn af bæði stelpum og strákum. Ég vissi að það var hægt að vera samkynhneigður og gagnkynhneigður en ég vissi ekki að það væri neitt meira í boði. Svo heyrði ég talað um tvíkynhneigð í fræðslu á unglingastigi í grunnskóla frá HIN, Hinsegin samtökum á Norðurlandi og hugsaði, vá þetta meikar svo mikinn sens og þá átta ég mig á því hver ég er.“ Sem er? „Í dag myndi ég segja að ég væri pankynhneigður. Sem er þannig lagað séð svipað og að vera tvíkynhneigður að því leyti að ég hrífst af einstaklingum en ekki líffærauppsetningu en geri ráð fyrir því að það séu til fleiri kyn en karl- og kvenkyn.“

Hann segist ekki hafa haft margar fyrirmyndir á sínum aldri á Akureyri þegar hann var að vaxa úr grasi. „Páll Óskar var auðvitað til en þó mér fyndist hann alltaf æðislegur var hann bæði eldri en ég og svo langt í burtu. Aðrar fyrirmyndir sem voru nær mér voru ekki í boði. Mig langar að vera fyrirmynd fyrir einhverja krakka ef ég get. Þess vegna finnst mér rosalega gaman að krakkar séu að fylgja mér og Gógó Starr á samfélagsmiðlum og reyni að haga mér þannig þar að það sé bara jákvætt og til fyrirmyndar þó DragSúgur og kabarettsenan sé kannski ekki endilega fyrir börn.“

"Mig langar að vera fyrirmynd fyrir krakka sem eru í sömu sporum og ég var fyrir nokkrum árum," segir Sigurður Heimir, einnig þekktur sem Gógó Starr.

Senan þrífst á vináttu og samvinnu
Sigurður er með mörg járn í eldinum en auk þess að starfa með DragSúgi hefur hann komið fram með ýmsum öðrum hópum í hinni nýju og blómstrandi kabarettsenu í Reykjavík. „Ég hef komið fram með Reykjavík Kabarett og burlesquehópnum Dömur og Herrar sem spratt upp úr námskeiði sem Margrét Erla Maack hélt í Kramhúsinu í vor. Svo tók ég þátt í Rauða skáldahúsinu, sem er mjög skemmtilegt konsept og var líka í kabarettsýningu á Rosenberg hjá kanadískri kabarettdívu. Og fleira og fleira. Þetta er samfélag fjöllistahópa sem tengist allt innbyrðis og það er lítið mál að fara á milli. Ég og fleiri úr DragSúgi höfum komið fram með Reykjavík Kabarett, Miss Mokka og Ungfrú Hringaná frá Reykjavík Kabarett hafa komið fram á DragSúgskvöldum, þessi sena þrífst á samvinnu og vináttu. Allir vilja gera vel og koma fram eins oft og þeir geta, deila sinni list og tjáningu með heiminum og heimurinn vill hlusta.“

Sigurður Heimir Guðjónsson hefur blásið lífi í dragsenuna á Íslandi en DragSúgur hefur staðið fyrir mánaðarlegum sýningum á Gauknum frá því í nóvember 2015.

Gaman að leika með kyngervi­
Alþjóðlega nafnið Gógó Starr kom sér vel í sumar á sýningarferðalagi til New York, San Francisco og Los Angeles. „Mér var boðið að koma fram á Slipper Room klúbbnum í New York í gegnum tengingu við Reykjavík Kabarett og þó aðallega Margréti Erlu Maack sem kemur oft fram þar. Og ég hugsaði með mér, fyrst ég var hvort sem er að fara með allt draslið með mér út, hvort ég gæti ekki komið fram á fleiri stöðum. Ég fór bæði með drag­atriði og boylesque en boylesque er í rauninni burlesque fyrir karlmenn, dans, stripp og þessi leikur með kynlífsvísanir.“ Boltinn byrjaði að rúlla og ferðalagið lengdist stöðugt og varði í sex vikur. „Ég var bókaður á klúbbum bæði á austur- og vesturströndinni og langaði sko ekkert að koma heim. Ég er búinn að koma fram hér heima með ný atriði svo til mánaðarlega í næstum tvö ár og auðvitað hefur mér stundum fundist ég vera að staðna. Þá er rosalega gaman að vera þessi nýi og ferski með atriði sem eru ólík öllu sem áhorfendur hafa séð áður.“
En hvað er það sem Gógó Starr gerir helst? „ Mér finnst ofsalega gaman að leika með kyngervi, blanda saman hinu kvenlega og karlmannlega, vera kannski í fullri dragmálningu en í kjólfötum, vera kvenmálaður strákur eða uppstríluð dragdrottning sem hreyfir sig karlmannlega eða er með smá skeggbrodda. Pæla í hvað er sexý, brjóta það niður og grínast svo með það.“

Gógó Starr í boylesqueham sem snýst um að blanda saman kvenlegum og karlmannlegum kynþokka. MYND/ Kaspars Bekeris

Dragdrottning og dansmær fara á flakk
Sigurður Heimir og Margrét Erla Maack ætla sér stóra hluti næsta sumar. „Við Margrét vorum bókuð á sama kvöld á Slipper Room fyrir einstaka tilviljun sem var ótrúlega skemmtilegt. Og þegar það var búið þá sögðum við: nú erum við búin að koma fram á Íslandi og í New York, hvað með að taka yfir Evrópu?“ Þau eru bæði þekkt fyrir að standa við orð sín og nú stendur yfir söfnun á Karolinafund þar sem aðdáendur og velunnarar geta stutt við Evrópuferðalag dansmeyjar og dragstjörnu og hægt að finna söfnunina á Facebook-síðum Gógó Starr og Miss Mokka.

Ýmis verkefni eru í nánari framtíð. „Í kvöld verður stórsýningin DragSúgur Extravaganza í Iðnó í tilefni Hinsegin daga og orðið uppselt. Ekki örvænta, DragSúgur á auðvitað fulltrúa í göngunni á morgun en ég ætla ekki að segja hvað við ætlum að gera,“ segir hann dularfullur. „Eina sem ég vil segja er að við verðum eins stórfengleg og við getum og ætlum að brjóta ýmsar staðalmyndir um kalla í kjólum og konur með skegg!“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira