Sport

Hluti af undirbúningi Mayweather var að komast að því hvað Conor finnst gott að borða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Floyd Mayweather og Conor McGregor.
Floyd Mayweather og Conor McGregor. Vísir/Getty
Bandaríski boxarinn Floyd Mayweather segist hafa unnið heimavinnuna sína um bardagamanninn Conor McGregor en framundan er boxbardagi á milli þeirra í Las Vegas 26. ágúst næstkomandi.

Báðir hafa þeir nú spáð því að þeir klári bardagann áður en lokabjallan hringir en mikil spenna er fyrir þessum boxbardaga á milli eins besta boxara allra tíma og hins kraftmikla og kjaftfora UFC-meistara.

„Búist við æsingi. Hann mun vera með ruslatal. Ég mun vera með ruslatal. Það verður fullt af blóði, nóg af svita og tár líka,“ sagði Conor McGregor.

Floyd Mayweather hefur nú svarað Íranum: „Þetta snýst um að vinna heimavinnuna þína. Þar er ekki aðalatriðið að horfa á myndbandsupptökur af bardögum heldur að læra inn á persónuna sem er að fara stíga inn í hringinn með þér. Þú vilt vita hvað þeim finnst best að borða og hvað þeir eru að gera þegar þeir eru ekki í æfingabúðum,“ sagði Floyd Mayweather.

„Það er það sem ég kalla að undirbúa sig af kostgæfni og að vinna heimavinnuna þína um væntanlegan mótherja,“ sagði Mayweather en Reuters fréttastofan segir frá.

Mayweather hefur engar áhyggjur af því að hinn örvhenti Conor McGregor muni búa til einhver vandræði fyrir hann.

„Síðast þegar ég gáði þá var ég enn ósigraður hvort sem það er á móti hefðbundnum boxurum eða á móti óhefðbundnum bardagamönnum eins og McGregor. Hann mun reyna og reyna en það mun bara taka orku frá honum,“ sagði Floyd Mayweather.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×