Meistararnir sáu tvö rauð í tapi gegn Burnley | Sjáðu mörkin

skrifar

Titilvörn Chelsea byrjaði skelfilega í dag er Burnley sótti þrjú stig í 3-2 sigri á Stamford Bridge en tveir leikmenn Chelsea sáu rautt spjald í dag.

Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley í dag en hann var tekinn af velli á 75. mínútu stuttu eftir að Chelsea minnkaði muninn.

Gary Cahill sem tók við fyrirliðabandinu hjá Chelsea var rekinn af velli með beint rautt spjald á 14. mínútu og tíu mínútum síðar kom Sam Vokes gestunum yfir.

Stephen Ward bætti við marki og var Vokes aftur á ferðinni á 43. mínútu og leiddi Burnley ansi óvænt 3-0 í hálfleik á heimavelli ensku meistaranna.

Alvaro Morata, nýjasti framherji Chelsea, kom inn á í upphafi seinni hálfleiks og hann minnkaði muninn á 69. mínútu með góðum skalla eftir fyrirgjöf Willian.

Cesc Fabregas var vikið af velli tíu mínútum fyrir leikslok þegar hann fékk annað gula spjald sitt og léku Chelsea-menn því síðustu tíu mínúturnar tveimur mönnum færri.

Þrátt fyrir það náði Chelsea að minnka muninn á nýjan leik í uppbótartíma þegar David Luiz kom boltanum í netið og var því mikil dramatík á lokamínútunum.


Bein lýsing

Leikirnir