Innlent

Eikynhneigðir taka þátt í gleðigöngunni í fyrsta sinn

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Gleðigangan verður gengin í miðbæ Reykjavíkur á morgun.
Gleðigangan verður gengin í miðbæ Reykjavíkur á morgun. Vísir/Hanna

Félag eikynhneigðra á Íslandi (Asexual á Íslandi) mun í fyrsta sinn taka þátt í gleðigöngunni á morgun. Eikynhneigðir eru einstaklingar sem laðast ekki kynferðislega að öðru fólki.

Gyða Bjarkadóttir, meðlimur Asexual á Íslandi, segir að með þessu vilji félagið auka sýnileika.

„Að vera asexual er að vera einstaklingur sem laðast lítið eða ekkert kynferðislega að öðrum. En þetta eru einstaklingar sem leita samt oft að rómantískum samböndum,“ segur Gyða í samtali við fréttastofu.

Fáni eikynhneigðra

Gyða segir að ekki verði um glæsivagn að ræða hjá félaginu en þau gangi saman undir fána eikynhneigðra. 

„Við vildum taka þátt í fyrra en við vorum í smá skipulagsleysi en það tókst ekki alveg. En það tókst í ár þannig að við göngum á morgun. Þetta verður ekki einhver glæsivagn en við verðum þarna nokkur, göngum undir fánanum og við viljum í raun bara auka sýnileika.“
Fleiri fréttir

Sjá meira