Alli braut ísinn fyrir Tottenham í góðum sigri

Alli fagnar því að hafa náð að brjóta ísinn í dag.
Alli fagnar því að hafa náð að brjóta ísinn í dag. vísir/getty
Dele Alli skoraði mark og sótti rautt spjald á Jonjo Shelvey í 2-0 sigri Tottenham á St. James Park í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar sem lauk rétt í þessu.

Tottenham var sterkari aðilinn frá fyrstu mínútu en náði ekki að brjóta ísinn fyrr en á 61. mínútu þegar Dele Alli stýrði boltanum í netið af stuttu færi eftir góðan undirbúning Christian Eriksen.

Stuttu áður hafði Shelvey fengið rautt spjald fyrir að traðka á Alli beint fyrir framan nefið á Andre Merriner, dómara leiksins. Glórulaust hjá Shelvey og algjörlega tilefnislaust.

Bakvörðurinn Ben Davies kláraði leikinn fyrir Tottenham á 70. mínútu þegar hann setti boltann í netið af stuttu færi eftir góðan undirbúning frá Alli, Harry Kane og Eriksen.

Kane fékk færi til að skora 100. mark sitt fyrir félagið á næstu mínútum en besta tilraun hans fór í stöngina en honum hefur enn ekki tekist að skora í leik í ensku úrvalsdeildinni í ágúst.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira