Innlent

Telur flesta lögmenn hafa vitað af stöðu borgarlögmanns

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs, gefur lítið fyrir gagnrýni borgarfulltrúa á vinnubrögð við ráðningu borgarlögmanns. Mynd/Hari
S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs, gefur lítið fyrir gagnrýni borgarfulltrúa á vinnubrögð við ráðningu borgarlögmanns. Mynd/Hari

S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs, segir að ekki hafi verið rætt um að framlengja umsóknarfrest vegna embættis borgarlögmanns þegar ljóst var að aðeins tveir umsækjendur voru um stöðuna. Hann telur þorra hæstaréttarlögmanna hafa vitað að staðan hafi verið laus til umsóknar en gagnrýnt hefur verið að hún hafi aðeins verið auglýst einu sinni í einu dagblaði.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi vinnubrögð meirihlutans harðlega í bókun í borgarráði á fimmtudag og þá sat Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar, hjá við atkvæðagreiðslu um ráðninguna.

„Hann virðist alltaf geta fundið eitthvað að hverju ráðningarferli, sem breytist hverju sinni. Ég velti fyrir mér hvort hann vilji sjálfur vera ráðningarnefndin, sem er fyrirkomulag sem mér hugnast ekki. Gagnrýni Lífar var svolítið óljós.“

S. Björn segir að hann viti ekki betur en að lögmenn hafi vitað af stöðunni á þessum tíma. Hann segir erfitt að svara hvers vegna áhuginn á embættinu hafi verið svo lítill, en líkt og komið hefur fram eru mánaðarlaunin þar 1,4 milljónir á mánuði.
„Aðalatriðið er að fá hæfa umsækjendur. Það var ekki vandamálið í þessu tilviki enda þessir tveir umsækjendur afburðahæfir.“

Hæstaréttarlögmaðurinn Ebba Schram var ráðin en hún hefur verið staðgengill borgarlögmanns undanfarin ár.

S. Björn blæs á gagnrýni Kjartans um að staðið hafi á afhendingu gagna. Bendir hann á að vaninn sé að gögn séu aðgengileg í sérstöku gagnaherbergi en Kjartan óskað eftir að fá þau send í tölvupósti þar sem hann var staddur úti á landi. Engin svör hafi fengist við því um hvað hann var að biðja, en orðið hafi verið við hans óskum. „Þetta er bara pólitískt geim.“
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira