Erlent

Útilokar ekki hernaðarinngrip í Venesúela

Samúel Karl Ólason skrifar
Rex Tillerson, Donald Trump og Nikki Haley.
Rex Tillerson, Donald Trump og Nikki Haley. Vísir/AFP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, vill ekki útiloka hernaðarinngrip í Venesúela. Umfangsmikil mótmæli hafa farið fram í landinu undanfarna mánuði og hefur Nicolas Maduro, forseti ríkisins, verið sakaður um einræðistilburði.

Nýverið voru haldnar umdeildar kosningar til nýs umdeilds stjórnlagaþings sem gera á breytingar á stjórnarskrá landsins. Stjórnarandstaðan er með meirihluta á löggjafarþinginu.

„Við höfum marga möguleika í Venesúela,“ sagði forsetinn. „Þeir eru nágrannar okkar. Við erum með hermenn út um allan heim og á stöðum sem eru mjög langt í burtu. Venesúela er ekki langt í burtu og fólkið þar er að þjást og þau eru að deyja. Við höfum marga möguleika í Venesúela og þar á meðal mögulegt hernaðarinngrip.“



Bandaríkin hafa beitt Venesúela viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum á undanförnum vikum. Þá hefur Trump gagnrýnt Maduro og kallað hann einræðisherra.



Trump ræddi við blaðamenn nú í kvöld og vildi hann ekki svara spurningu um hvort að bandarískir hermenn myndu leiða umrætt hernaðarinngrip.



„Við tölum ekki um slíkt. Hernaðaraðgerð er þó eitthvað sem gætum svo sannarlega gert.“

Hernaðaryfirvöld Bandaríkjanna segjast ekki hafa fengið skipanir varðandi Venesúela frá forsetanum.


Tengdar fréttir

Tveir drepnir og tíu handteknir í árás á herstöð

Um er að ræða misheppnaða tilraun lítils hóps hermanna til uppreisnar gegn forseta landsins, Nicolás Maduro. Mennirnir gerðu árás á herstöð í Valencia, þriðju stærstu borg Venesúela.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×