Lífið

Kid Rock fær stuðning frá Repúblikanaflokknum

Kjartan Kjartansson skrifar
Kid Rock gæti orðið þekktur sem herramaðurinn frá Michigan verði hann kjörinn til Bandaríkjaþings.
Kid Rock gæti orðið þekktur sem herramaðurinn frá Michigan verði hann kjörinn til Bandaríkjaþings. Vísir/EPA
Forysta Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum er sögð áhugasöm um að tónlistarmaðurinn Kid Rock bjóði sig fram fyrir flokkinn til öldungadeildar Bandaríkjaþings.

Kid Rock hefur ekki lýst því yfir að hann ætli að bjóða sig fram í heimaríki sínu Michigan. Það vakti hins vegar mikla athygli þegar hann skráði lénið kidrockforsenate.com og tísti framboðsmyndum.

Skoðanakönnun sem gerð var í lok júlí sýndi að aðeins átta prósentustigum færri studdu Kid Rock en Debbie Stabenow, öldungadeildarþingmann Michigan-ríkis úr röðum demókrata.

Tónlistarmaðurinn er ef til vill hvað best þekktur fyrir að hafa verið í sambandi við fyrrverandi Strandvarðarleikkonuna Pamelu Anderson til nokkurra ára.

„Villtur sveitalubbi“ ætti ekki að fæla kjósendur

Nú segir Politico að Senate Leadership Fund, pólitísk aðgerðarnefnd sem var stofnuð fyrir forsetakosningarnar í fyrra og nýtur stuðnings Mitchs McConnell, oddvita repúblikana í öldungadeildinni, hafi lýst yfir stuðningi við tónlistarmanninn.

„Við værum í raun og veru mjög áhugasöm um framboð hans,“ hefur blaðið eftir Steven Law, forseta nefndarinnar.

Kid Rock studdi Donald Trump í síðustu forsetakosningum og Mitt Romney, frambjóðanda repúblikana gegn Barack Obama árið fjórum árum áður.

Law segir að það eigi ekki að fæla kjósendur frá því að kjósa Kid Rock að hann sé talinn „villtur sveitalubbi“. Hann sé raunverulega snjall náungi sem hugsi um stefnumótun og sé klókur athafnamaður.

Kosið verður til Bandaríkjaþings í nóvember á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×