Innlent

Ók í veg fyrir mótorhjólahóp

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Ökumaður ók í veg fyrir mótorhjólahóp á Suðurlandsvegi í dag með þeim afleiðingum að fremsti ökumaður hópsins var fluttur með þyrlu á Landspítala.
Ökumaður ók í veg fyrir mótorhjólahóp á Suðurlandsvegi í dag með þeim afleiðingum að fremsti ökumaður hópsins var fluttur með þyrlu á Landspítala. Vísir/Egill

Ökumaður ók í veg fyrir mótorhjólahóp á Suðurlandsvegi í dag með þeim afleiðingum að fremsti ökumaður hópsins var fluttur með þyrlu á Landspítala.

„Það er mótorhjólahópur sem er að keyra í svokallaðri keðju eftir Suðurlandsvegi í austur. Svo kemur ökumaður á móti og ætlar að snúa bifreið sinni við og keyrir í veg fyrir þá þannig að einn þeirra lendir framan á bílnum og kastast út fyrir veg,“ segir Gísli Wiium, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við Vísi.

Tveir aðrir ökumenn í hópnum runnu á hliðina en slösuðust ekki.

Ökumaður bílsins er jafnframt óslasaður og þá eru meiðsl þess sem fluttur var á sjúkrahús ekki talin alvarleg í fyrstu, en hann var sem fyrr segir fluttur á bráðadeild landspítalans í Fossvogi.

Lögreglunni barst tilkynning um slysið klukkan 14:27 í dag og var veginum lokað stuttu síðar þegar lögreglan kom á staðinn eða um 14.40. Vegurinn var ekki opnaður fyrr en klukkan 16 og var ökumönnum vísað á hjáleið á meðan á aðgerðum stóð á vettvangi.

Lögreglan vill þakka  þeim ökumönnum sem urðu fyrir töfum fyrir sýnda þolinmæði og samvinnu. 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira