Íslenski boltinn

Sindri Snær: Það er ekki hægt að lýsa þessu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sindri tekur við bikarnum að leikslokum og fagnar ásamt liðsfélögum sínum.
Sindri tekur við bikarnum að leikslokum og fagnar ásamt liðsfélögum sínum. Vísir/Hafliði Breiðfjörð
„Þetta er yndislegt, ógegðslega gaman. Það er ekki hægt að lýsa þessu. Ég er búinn að reyna tvisvar áður og þetta tókst núna,“ sagði fyrirliði ÍBV, Sindri Snær Magnússon, í samtali við Vísi eftir sigurinn á FH í úrslitaleik Borgunarbikarsins.

Eyjamenn voru mun betra liðið í fyrri hálfleik og skoruðu þá eina mark leiksins.

„Við ætluðum ekki að leyfa þeim að fá neinn tíma í byrjun og mér fannst við geggjaðir í fyrri hálfleik. Svo duttum við aðeins of aftarlega í seinni hálfleik og síðustu tíu mínúturnar hefðum við getað refsað þeim tvisvar þrisvar. Fyrri hálfleikur var mun betri en seinni og það dugði í dag.“

Eyjamenn fóru á kostum í stúkunni og slógu upp þjóðhátíð á Laugardalsvelli. Hversu miklu máli skipti stuðningurinn í dag?

„Stúkan gaf okkur mikinn kraft og áhorfendur voru geggjaðir í dag. Þeir voru fleiri en í fyrra og ég get ekki beðið eftir að hitta fólkið í Dallinum á eftir,“ bætti Sindri Snær við.

Sindri á von á góðum móttökum þegar liðið siglir með bikarinn til Vestmannaeyja í kvöld.

„Ætli það verði ekki blys og flugeldar, við siglum inn og verðum uppi á þaki úti á dekki. Þetta verður geðveikt og ég er búinn að hugsa um þetta margar nætur síðan ég fór til Eyja fyrir tveimur árum. Ég get ekki beðið eftir að fara í Herjólf, ég er ekki að grínast, þetta verður besta sigling sem ég hef farið í,“ sagði kampakátur fyrirliði Eyjamanna að lokum.


Tengdar fréttir

Kristján: Þjóðhátíð númer tvö og þrjú

"Þetta er rosalegt, ég er svo glaður að það er með ólíkindum," sagði Kristján Guðmundsson þjálfari ÍBV eftir að hans menn tryggðu sér bikarmeistaratitilinn í knattspyrnu með 1-0 sigri á FH á Laugardalsvelli í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×