Erlent

Elsti maður heims látinn

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Israel Kristal lést í gær 113 ára gamall. Hann hlaut viðurkenningu frá Guinness World Records fyrir að vera elsti maður heims.
Israel Kristal lést í gær 113 ára gamall. Hann hlaut viðurkenningu frá Guinness World Records fyrir að vera elsti maður heims. Visir/afp
Elsti maður í heimi lést í gær þegar rúman mánuð vantaði upp á að hann yrði 114 ára. Israel Kristal var uppi á tímum heimsstyrjaldarinnar fyrri og síðari en auk þess lifði hann af útrýmingarbúðirnar í Auschwitz.

Kristal fæddist árið 1903 nærri bænum Żarnów í Póllandi. Fjölskylda hans voru strangtrúaðir Gyðingar. Oren Kristal, barnabarn Israels, sagði í viðtali við Guardian að afi sinn hafi, í æsku, aðstoðað við að smygla áfengi. “Hann hljóp marga kílómetra, berfættur í snjónum að nóttu til með þyngslin á bakinu, í kringum tólf ára gamall, til að smygla áfengi á milli átakalína í stríðinu,” segir afabarnið.

Oren Kristal segir afa sinn hafa vanið sig á að ganga ávallt rösklega. Hann sagði margsinnis frá því að þegar hann var ungur hafi verið nauðsynlegt að hafa hraðann á ellegar frysi hann í sporunum.

Israel Kristal var 113 ára þegar hann féll frá. Ástvinir hins látna segja að hann hafi verið harðduglegur.Vísir/afp
Sá eini innan fjölskyldunnar sem lifði útrýmingarbúðirnar af.Fyrri kona Kristals og börnin þeirra tvö voru drepin í útrýmingarbúðunum í seinni heimsstyrjöldinni. Þau voru á meðal sex milljóna Gyðinga sem voru drepnir í Helförinni.

“Hann sagði okkur gjarnan, þegar við syrgðum, að við ættum að hugsa til þess að hinn látni ástvinur væri jarðaður í landi Ísraelsmanna. Flestir þeirra sem hann þekkti fengu ekki þann grafreit sem þeir hefðu kosið,” segir Oren Kristal um lífsspeki afa síns.

Israel Kristal lifði, sem áður sagði, af seinni heimsstyrjöldina en slapp engu að síður við illan leik. Hann vó 37 kíló þegar hann slapp úr útrýmingarbúðunum. Hann giftist seinni konunni sinni og flutti með henni til Ísrael árið 1950, hvar þau stofnuðu fjölskyldu og fóru út í verslunarrekstur. Eiginkona hans var einnig á meðal þeirra fáu sem komust lífs af úr Auschwitz.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×