Erlent

Merkel með öruggt forskot í könnunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Flest bendir til þess að Angela Merkel haldi velli sem kanslari Þýskalands.
Flest bendir til þess að Angela Merkel haldi velli sem kanslari Þýskalands. Vísir/AFP
Þegar sex vikur eru til þýsku þingkosninganna mælist flokkur Angelu Merkel kanslara með öruggt forskot í skoðanakönnunum. Stjórnmálakskýrendur segja að kjósendur hallist að stöðugleika og öryggi sem þeir tengja við Merkel.

Ekki er langt síðan að útlit var fyrir að kosningarnar yrðu hnífjafnar. Þá sýndu kannanir að lítill munur var á stuðningi við Sósíaldemókrata með Martin Schulz í forystu og Kristilega demókrataflokk Merkel, að því er segir í fréttaskýringu breska blaðsins The Observer.

Nú sýna kannanir hins vegar að bandalag Merkel er með fjórtán prósentustiga forskot á Schulz og félaga.

Heribert Prantl, leiðarahöfundur þýska blaðsins Süddeutsche Zeitung, líkir þýskum kjósendum við fjárhættuspilara sem sættir sig við að koma út á jöfnu. Ástæðan sé sú að þeir sjái ólgusjóinn í heiminum og ruglað fólk sem hafi komist til valda í öðrum löndum.

„[..] þeir eru til í að halda henni, einfaldlega vegna þess að hún er ekki sturluð heldur hæf og reynd,“ skrifar Prantl.

Kosið verður til sambandsþings Þýskalands 24. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×