Erlent

Nægar sannanir til að sakfella Assad fyrir stríðsglæpi

Kjartan Kjartansson skrifar
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, hefur meðal annars verið sakaður um að beita efnavopnum á andstæðinga stjórnarhersins.
Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, hefur meðal annars verið sakaður um að beita efnavopnum á andstæðinga stjórnarhersins. Vísir/AFP

Rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna á borgarastríðinu í Sýrlandi hefur safnað nægum sönnunum til þess að sakfella Bashar al-Assad forseta fyrir stríðsglæpi. Þetta segir Carla del Ponte, einn nefndarmanna og fyrrverandi saksóknari í stríðsglæpamálum.

Del Ponte tilkynnti í síðustu viku að hún ætlaði að segja af sér. Hún er ósátt við að öryggisráð SÞ hafi ekki komið á fót sérstökum dómstól fyrir Sýrland sem gæti fjallað um stríðsglæpi og væri eðlilegt framhald á störfum nefndarinnar.

Í viðtali við svissnesk dagblaðið SonntagsZeitung segist hún fullviss um að nægar sannanir séu komnar fram um sekt Assad, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

„Þess vegna er ástandið svona ergjandi. Undirbúningsvinnunni er lokið. Þrátt fyrir það þá er enginn saksóknari og enginn dómstóll,“ segir del Ponte sem sótti mál vegna stríðglæpa í Rúanda og Júgóslavíu sálugu á sínum tíma.

Öryggisráðið hefur lítið sem ekkert aðhafst til þess að taka á stríðsglæpum í Sýrlandi. Assad er bandamaður Rússa sem eru með neitunarvald í ráðinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira