Innlent

Hafnarfjarðarbær fyrst sveitarfélaga á Íslandi vottað jafnlaunamerki frá velferðarráðuneytinu

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Í fréttatilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ segir að markmiðið með innleiðingunni sé að koma á og viðhalda launajafnrétti hjá Hafnarfjarðarbæ.
Í fréttatilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ segir að markmiðið með innleiðingunni sé að koma á og viðhalda launajafnrétti hjá Hafnarfjarðarbæ. Vísir/GVA

Hafnafjarðarbær er fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að fá vottað jafnlaunamerki frá velferðarráðuneytinu en merkið staðfestir að atvinnurekendur hafi komið sér upp ferli sem tryggir að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum feli hvorki í sér kynbundna mismunun eða mismunun af öðrum toga.

Í fréttatilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ segir að markmiðið með innleiðingunni sé að koma á og viðhalda launajafnrétti hjá Hafnarfjarðarbæ og uppfylla skyldur atvinnurekenda um að tryggja jafnan rétt kvenna og karla, greiða þeim jöfn laun og tryggja að þau njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.

„Við erum gríðarlega stolt af því að vera fyrsta sveitarfélag landsins að fá vottað jafnlaunakerfi. Það var heilmikið átak að fara í gegnum þessa vinnu og við erum stolt af og þakklát starfsfólki Ráðhússins fyrir hvað vinnan hefur gengið vel,“ sagði Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í tilefni innleiðingarinnar. „Fyrir utan hið augljósa, að vottunin tryggir jöfn laun óháð kyni, þá er hún um leið verkfæri til að viðhalda góðum aga við þessar ákvarðanir,“ bætir Guðlaug við.

Starfshópurinn sem stýrði innleiðingunni var skipaður af Andra Ómarssyni verkefnastjóra, Berglindi Guðrúnu Bergþórsdóttur mannauðsstjóra, Haraldi Eggertssyni verkefnastjóra  og Lúvísu Sigurðardóttur gæðastjóra.

Fyrsta stofnunin sem hlaut merkið var embætti tollstjóra.
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira