Golf

Thomas tryggði sér sigur á PGA-meistaramótinu með ótrúlegum lokakafla | Myndbönd

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Thomas á lokaflötinni í dag.
Thomas á lokaflötinni í dag. Vísir/getty
Bandaríski kylfingurinn Justin Thomas stóð uppi sem sigurvegari á 99. PGA-meistaramótinu í golfi á Quail Hollow-vellinum í Bandaríkjunum en hann lauk leik á átta höggum undir pari með tveggja högga forskot á næstu kylfinga.

Er þetta í fyrsta skiptið sem hinn 24 árs gamli Thomas fagnar sigri á einu af fjórum risamótum ársins en hann varð um leið fjórði yngsti kylfingurinn til þess að vinna PGA-meistaramótið.

Fram að deginum í dag hafði mest verið talað um Kevin Kisner og Hideki Matsuyama fyrir lokahringinn en þeir höfðust skipst á forskotinu undanfarna daga og var Thomas þremur höggum á eftir Kisner fyrir lokadaginn.

Thomas fékk enga draumabyrjun, skolli á fyrstu og þriðju braut dagsins með fugli á milli þýddi að hann dróst strax aftur úr en tveir fuglar á 7. og 9. holu þýddu að hann var undir pari þegar lokahringurinn var hálfnaður.

Á tíundu holu fékk Thomas ótrúlegan fugl en púttið fyrir fugli stöðvaði á holubrúninni en eftir fimm sekúndna bið féll það loksins en myndband af því má sjá hér fyrir neðan.

Fylgdu því tvö pör áður en Thomas sýndi töfrana á nýjan leik, nú setti hann niður stutt innáhögg fyrir fugli á þrettándu holu sem gaf honum tveggja högga forskot á efstu kylfingana. Myndband af því má einnig sjá hér neðst í fréttinni.

Síðustu þrjár holur vallarins reyndust kylfingum hausverkur alla helgina en Thomas setti niður fugl á sautjándu braut eftir frábært innáhögg.

Gat hann því leyft sér að vera rólegur yfir skolla á lokaholunni, aðrir kylfingar þurftu kraftaverk til að ná honum.

    

Franseco Molinari, Patrick Reed og Louis Oosthuizen komu næstir á sex höggum undir pari en Kisner (+3) og Matsuyama (+1) náðu sér engan vegin á strik í dag og lentu í 5. og 7. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×