Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: KR - Valur 0-0 | Markalaust í Vesturbænum

Árni Jóhannsson skrifar
Garðar Jóhannsson og Bjarni Ólafur Eiríksson í baráttunni í kvöld.
Garðar Jóhannsson og Bjarni Ólafur Eiríksson í baráttunni í kvöld. Vísir/Anton
KR-ingar og Valsmenn skiptu stigunum í kvöld á milli sín eftir 90 mínútur af áköfum fótbolta þar sem fá færi létu á sér kræla en varnarleikur liðanna þeim mun meira í hávegum hafður. Þau fáu skot sem náðust í leiknum hittu annaðhvort ekki markið eða voru auðveld viðureignar fyrir markverði liðanna. 

Anton Brink, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á leiknum og náði þessum myndum hér fyrir neðan.

Það færðist mikil harka í leik liðanna og er það mál manna að Aron Bjarki Jósepsson, KR og Haukur Páll Sigurðsson, Val, hafi verið manna heppnastir að hafa klárað allan leikinn. KR-ingar mega einnig vera ósáttir við það að hafa ekki fengið víti um miðbik seinni hálfleiks þegar Einar Karl Ingvarsson virtist fá boltann í hendina á vítateigs horninu. 

Valsmenn fara aftur á Hlíðarenda líklega sáttari með stigið sem þeir náðu í í dag, sérstaklega í ljósi þess að Stjarnan náði einungis í eitt stig fyrir norðan fyrr í dag. KR-ingar fara nú að einbeita sér að komast í næstu sæti fyrir ofan til að eygja von um Evrópukeppni að ári.

Afhverju endaði leikurinn í jafntefli?

Bæði lið seldu sig dýrt í dag og var varnarleikurinn í fyrirrúmi hjá þeim báðum. Liðin spiluðu boltanum ágætlega á milli sín og reyndu hvað þau gátu að opna vörn andstæðingsins en varnarmúrarnir héldu allan tímann.

Gerði það að verkum, eins og sagði áðan, að fá færi litu dagsins ljós og þau voru vannýtt af báðum færum en markverðir liðanna höfðu lítið að gera í dag. Bæði þegar kom að markvörslu og að grípa inn í fyrirgjafir.

Hvað gekk illa?

Færasköpun gekk mjög illa í dag. Það er ekki að segja að sóknarleikurinn hafi verið eitthvað lélegur, hann var bara eins góður og varnir liðanna leyfðu. Þessi leikur var að mati blaðamanns ekki leiðinlegur þó að mörkin hafi vantað.

Bestur á vellinum?

Það er mjög erfitt að taka einhvern einn út úr því liðin voru að spila mjög vel. Til að velja einhvern þá mun ég velja Pálma Rafn Pálmason en hann sinnti varnarhlutverki sínu vel í dag og reyndi hvað hann gat að koma boltanum til sóknarmanna sinna.

Hvað gerist næst?

Valur fær Grindavík í heimsókn í næstu umferð og KR fær Grindavík einnig í heimsókn í næsta leik en hann er partur af þar næstu umferð þar sem búið er að fresta leik KR og FH sem átti að vera í 16. umferð.

Valur heldur fimm stiga forskoti á Stjörnuna enn sem komið er en FH getur minnkað muninn á Val en þeir eiga leik inni á Valsmenn þegar þetta er skrifað. KR-ingar eru í baráttu um þriðja eða fjórða sæti en þeir eru búnir að missa Grindavík upp fyrir sig eftir leiki dagsins.



Ólafur Jóhannesson.Vísir/Anton
Ólafur Jóhannesson: Mér er sama um hvað hin liðin eru að gera

„Þetta var gott stig í fínum leik“, sagði þjálfari Valsmanna þegar hann var spurður út í það hvort að Valsmenn hefðu tapað tveimur stigum í kvöld. Hann var síðan spurður að því hvað Valur hefði getað gert til að ná í öll stigin.

„Þetta er bara hörkuleikur, þetta eru tvö góð lið á okkar mælikvarða og við á mjög erfiðum útivelli. Það er mjög gaman að spila hérna finnst mér alltaf. Þetta var hörkuleikur þar sem bæði lið voru að berjast og lögðu mikið á sig. Það dró aðeins af mönnum seinni partinn í leiknum enda völlurinn þungur. Fyrst og fremst er ég þó ánægður með að hafa haldið markinu hreinu og við tökum stigið“.

Hann sagði að sýnir menn hafi jafnvel verið heppnir að fá ekki á sig víti þegar boltinn fór augljóslega í hendi varnarmanns Vals en vildi ekki eyða mörgum orðum í það. Hann var að lokum spurður út í hvað stigið gerði fyrir hans menn þar sem Stjarnan náði einungis í eitt stig fyrir norðan fyrr í dag.

„Mér er alveg sama um það. Mér er sama um hvað hin liðin eru að gera, við erum bara að hugsa um okkur. Það er það eina sem skiptir máli“.

Willum Þór Þórsson, þjálfari KR.Vísir/Anton
Willum Þór Þórsson: Í kvöld guggnaði dómarinn á því að dæma augljósa vítaspyrnu

Þjálfari KR var líklega sá þjálfari sem er ósáttari við stigið sem hvort lið um sig fékk fyrir leikinn í kvöld. Hann var spurður að því hvort hann liti á það sem að tvö stig hefðu tapast.

„Ég veit ekki hvað skal segja, við erum að spila á móti frábæru liði. Þetta var svona toppfótbolti eins og hann gerist bestur, bæði lið komu til leiks vel skipulögð og gáfu fá færi á sér. Við vildum auðvitað taka öll stigin og fannst við fá færi til þess og í svona leik þar sem lítið skilur í milli þá vill maður fá það sem maður á skilið“.

Willum var svekktur að dómari leiksins hafi ekki dæmt víti í seinni hálfleik og var spurður í kjölfarið út í það hvort að KR hafi verið heppnir á móti að missa ekki mann af velli þegar Aron Bjarki Jósepsson braut harkalega á sér í fyrri hálfleik.

„Í kvöld guggnaði dómarinn á því að dæma augljósa vítaspyrnu og það er bara dýrt. Mér fannst við ekki heppnir að missa ekki mann af velli í fyrri hálfleik, Haukur Páll straujaði svona sjö eða átta manns hérna í kvöld og það var alltaf verið að tala við hann en um leið og okkar maður fer í fyrsta brot og þá er beint sveiflað gula á hann. Það er algjörlega fáránlegt, það er maður sparkaður út úr leiknum hjá okkur og það var ekki einu sinni veitt viðtal. Þeir böðluðust á okkur út um allan völl. Mér fannst þetta bara ekki boðlegt“.

Willum var spurður að því hvað stigið myndi gera fyrir KR.

„Við erum bara á þeim stað að taka bara einn leik í einu og gefa allt í þann leik. Við höfum verið að spila mjög vel undanfarið og það er ekkert hægt að segja á móti jafnsterku liði og Val þegar niðurstaðan er jafntefli. Þetta eru tvö frábær lið og það mátti lítið á milli mæla og þetta er niðurstaðan og hún er líklega sanngjörn“.

Að lokum var Willum spurður út í aðstæðurnar í dag en hann kvartaði undan þeim í seinustu umferð en í dag voru þær frábærar.

„Aðstæðurnar í dag voru frábærar og mér fannst bæði liðin mjög vel skipulögð og ég hef alveg smekk fyrir svona fótbolta. Þar sem allir gefa allt í leikinn og liðin gefa fá færi á sér, þetta var kraftmikill fótboltaleikur þannig að mér fannst þetta flottur fótbolti hérna í dag hjá báðum liðum“.

Vísir/Anton
Vísir/Anton
Vísir/Anton
Vísir/Anton
Vísir/Anton
Vísir/Anton

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira