Lífið

Söfnun sett af stað fyrir litlu hetjuna Jökul Mána: „Við erum afar þakklát“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Jökull Máni fer á næstu mánuðum í hjartaaðgerð í Svíþjóð.
Jökull Máni fer á næstu mánuðum í hjartaaðgerð í Svíþjóð. Anna Baldvina
Jökull Máni Nökkvason fæddist þann 14.júlí síðastliðinn, sjö vikum fyrir tímann. Jökull Máni var aðeins 1688 grömm þegar hann kom í heiminn, tæpar 7 merkur, og var því bæði fyrirburi og léttburi. Litli drengurinn er bæði með Downs heilkenni og hjartagalla svo hans bíður hjartaaðgerð í Svíþjóð. Foreldrar Jökuls Mána eru þau Anna Baldvina og Nökkvi Már Víðisson en sett hefur verið af stað söfnun fyrir fjölskylduna.

„Það er alveg ótrúlegt hvað það eru margir sem hugsa vel til okkar og hafa styrkt okkur og við erum afar þakklát þeim og stelpunum sem standa á bak við þessa söfnun,“ segir Anna Baldvina í samtali við Vísi. Hún segir að Jökull Máni sé fullkomin lítil hetja. „Hann stendur sig ekkert smá vel og er hörkuduglegur, ákveðinn og endalaust að koma öllum á óvart.“





Anna Baldvina
Jökull Máni þarf að hafa náð fjórum kílóum að þyngd til þess að mega fara í hjartaaðgerðina sem verður gerð í Lundi í Svíþjóð. Talið er að það geti tekið hann um það bil sex mánuði en hann er í dag mánaðar gamall og rúm tvö kíló. Það er því ljóst að hann mun dvelja ásamt foreldrum sínum á Vökudeild og síðar á Barnaspítala Hringsins í langan tíma, að minnsta kosti þar til hann kemst út í aðgerðina.

Þær Anna Guðrún Guðjónsdóttir og Sonja Finnsdóttir standa fyrir söfnun fyrir fjölskylduna..Reikningsnúmerið er 0115-05-063111 og er reikningurinn á nafni Önnu Baldvinu, kennitala 270198-3179.

„Við ákváðum að stofna þessa styrktarsíðu einfaldlega vegna þess að okkur langaði til þess að hjálpa þeim Önnu Baldvinu og Nökkva Má, vinum okkar en við vorum einmitt með Nökkva í skóla. Við vitum að það er langur og krefjandi tími framundan hjá þeim en þau eru bæði ung, 19 og 20 ára og þetta er þeirra fyrsta barn. Okkur fannst sjálfsagt að reyna að gera eitthvað sem gæti auðveldað þeim að takast á við þetta mikla verkefni,“ segir Sonja í samtali við Vísi.

Einnig verður haldið styrktarhlaup fyrir Jökul Mána þar sem fólki gefst kostur að styrkja söfnunina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×