Sport

Bardagi aldarinnar verður í beinni á Stöð 2 Sport

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Conor ætlar sér að rota Mayweather og það helst í fyrstu lotu.
Conor ætlar sér að rota Mayweather og það helst í fyrstu lotu. vísir/getty
Hnefaleikabardagi þeirra Conor McGregor og Floyd Mayweather verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Um er að ræða einn stærsta viðburð síðustu ára enda um algjörlega einstakan viðburð að ræða. Ganga margir svo langt að tala um bardaga aldarinnar og einn þann merkilegasta sem farið hefur fram.

Hinn fertugi Mayweather er hnefaleikakappi og vann alla sína bardaga á ferlinum. Hann hafði lagt hanskana á hilluna en snýr aftur til þess að mæta stærstu stjörnu UFC sem á engan atvinnumannabardaga að baki.

Þrátt fyrir það hafa ótrúlega margir trú á því að Írinn kjaftfori geti orðið fyrstur allra til þess að klára Mayweather. Sjálfur efast Írinn ekki um að hann muni hafa betur og sagðist nú nýlega varla hafa trú á því að Mayweather myndi endast fram í aðra lotu. Stór orð líkt og venjulega en Conor er aftur á móti vanur því að standa við stóru orðin.

Þeir fóru í mikið kynningarferðalag á dögunum og rifu kjaft til skiptis á meðan heimsbyggðin fylgdist með.

Bardaginn fer fram þann 26. ágúst næstkomandi. Hægt er að kaupa áskrift að Stöð 2 Sport á 365.is.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×