Enski boltinn

Skrópið kostar Diego Costa að minnsta kosti 42 milljónir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Costa verður stundum svolítið reiður.
Diego Costa verður stundum svolítið reiður. Vísir/AFP
Chelsea hefur ákveðið að sekta Diego Costa um tveggja vikna laun en framherjinn hefur ekki ekki látið sjá sig á Stamford Bridge eftir sumarfríið.

Diego Costa er enn að dunda sér í Brasilíu en hann sagði frá þeirri skoðun sinni í viðtali við Daily Mail að honum líði eins og Chelsea sé að koma í veg fyrir að hann geti snúið aftur til Atletico Madrid.

Tveggja vikna laun Diego Costa eru engir smáaurar heldur um 300 þúsund pund eða tæplega 42 milljónir í íslenskum krónum.  Sky segir frá.

Diego Costa segir að knattspyrnustjórinn Antonio Conte hafi tilkynnt honum eftir tímabilið að hann væri ekki inn í framtíðarplönum Ítalans hjá Chelsea.  Eftir þá frétt skömmu eftir síðasta tímabil hefur verið algjört bíó að fylgjast með málinu ekki síst þar sem þarna er á ferðinni leikmaður sem var með 20 mörk og 8 stoðsendingar í 35 leikjum á meistaratímabili Chelsea 2016-17.

Diego Costa segist vera opinn fyrir því að eyða einu ári í Brasilíu án þess að spila og segir það þá ekki skipta sig máli þótt að Chelsea sekti hann grimmt eða borgi honum ekki laun.  Fyrsta sektin er nú orðin staðreynd og þær gætu vissulega orðið fleiri og mun hærri.

Diego Costa hefur nefnilega ekki mætt á æfingasvæði Chelsea síðan að hann hjálpaði liðinu að vinna ensku úrvalsdeildina síðast vor.

Atletico Madrid seldi Diego Costa til Chelsea fyrir 32 milljónir punda árið 2014 en nú vill Chelsea fá um 50 milljónir punda fyrir hann. Eitt stærsta vandamálið er að Atletico Madrid er í félagsskiptabanni í þessum glugga og getur því ekki keypt framherjann fyrr en í fyrsta lagi í janúar. Annað stórt vandamál er að spænska félagið vill ekki borga svona mikið fyrir leikmanninn sem er orðinn 28 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×