Enski boltinn

Aldarfjórðungur síðan keppni í ensku úrvalsdeildinni hófst | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Brian Deane reyndist Manchester United erfiður ljár í þúfu í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar tímabilið 1992-93.
Brian Deane reyndist Manchester United erfiður ljár í þúfu í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar tímabilið 1992-93. vísir/getty
Í dag, 15. ágúst, eru nákvæmlega 25 ár síðan keppni í ensku úrvalsdeildinni hófst.

Níu leikir fóru fram í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar laugardaginn 15. ágúst 1992.

Fyrsta markið í sögu hennar skoraði Brian Deane fyrir Sheffield United gegn Manchester United á Bramall Lane eftir aðeins fimm mínútna leik. Deane skallaði þá boltann framhjá Peter Schmeichel af stuttu færi eftir langt innkast.

Deane skoraði aftur á 50. mínútu og kom Sheffield United í 2-0. Mark Hughes minnkaði muninn 11 mínútum síðar en nær komst United ekki. Fall reyndist þó fararheill fyrir United sem endaði tímabilið á að verða Englandsmeistari í fyrsta sinn síðan 1967.

Mark Robins skoraði tvívegis í óvæntum sigri Norwich á Highbury í 1. umferðinni 1992.vísir/getty
Ein óvæntustu úrslitin í 1. umferðinni fyrir 25 árum komu á gamla Highbury þegar Norwich vann 2-4 útisigur á Arsenal.

Skytturnar voru 0-2 yfir í hálfleik en Norwich tryggði sér sigurinn með fjórum mörkum á 15 mínútna kafla í seinni hálfleik. Mark Robins, sem á að hafa bjargað starfi Sir Alex Ferguson hjá Manchester United, skoraði tvívegis fyrir Kanarífuglana.

Norwich var spútniklið fyrsta tímabils ensku úrvalsdeildarinnar og var lengi vel á toppnum. Norwich endaði að lokum í 3. sæti. Liðið spilaði mikinn sóknarbolta og það sást á markatölunni. Norwich skoraði 61 mark en fékk á sig 65 mörk.

Alan Shearer skoraði tvö mörk í sínum fyrsta leik fyrir Blackburn Rovers.vísir/getty
Blackburn Rovers sló félagaskiptametið á Englandi sumarið 1992 þegar félagið borgaði Southampton 3,6 milljónir punda fyrir 22 ára gamlan framherja að nafni Alan Shearer.

Hann stimplaði sig strax inn og skoraði tvö mörk í 3-3 jafntefli gegn Crystal Palace í 1. umferðinni. Þegar Shearer lagði skóna á hilluna 2006 hafði hann skorað 260 mörk í ensku úrvalsdeildinni. Markamet hans stendur enn.

Hér fyrir neðan má sjá myndband þar sem fyrsta tímabil ensku úrvalsdeildarinnar er rifjað upp á 60 sekúndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×