Íslenski boltinn

Upptekinn við að verja skot frá Ronaldo þegar FH spilar við KR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Nielsen.
Gunnar Nielsen. Vísir/Stefán
FH-ingar fórnuðu aðalmarkverði sínum þegar þeir létu færa stórleikinn við KR fram til 31. ágúst en færeyski markvörðurinn Gunnar Nielsen er upptekinn með landsliðinu á þessum tíma.

Það er búið að vera mikið að gera hjá FH á síðustu vikum enda allt á fullu í deild, bikar og Evrópukeppni.

FH-ingar fengu því að færa deildarleik á móti KR sem átti að fara fram sunnudaginn 20. ágúst. Hann var færður ellefu daga fram í tímann til að létta á álaginu á Hafnarfjarðarliðinu.

Framundan eru nefnilega tveir leikir í umspili um sæti í Evrópudeildinni á móti portúgalska félaginu Braga. FH spilaði bikarúrslitaleik um síðustu helgi en næstu leikir liðsins verða á móti portúgalska liðinu.

Á sama tíma og leikur FH og KR á nú að fara fram í lok mánaðarins mun Gunnar Nielsen vera að spila með færeyska landsliðinu á móti Cristiano Ronaldo og félögum í Portúgal í undankeppni HM 2018.

„Við þurftum einhvern veginn að leysa þetta. Við töldum að það væri betra að gera þetta svona til að dreifa álaginu. Við erum ánægðir með þetta," segir Heimir í samtali við fótbolta.net en þar kemur fram að varamarkvörðurinn Vignir Jóhannesson muni verja markið gegn KR.

Vignir kom frá Selfossi fyrir tímabilið og hefur leikið fjóra leiki með FH í Borgunarbikarnum í sumar. FH-ingar unnu alla þá fjórar leiki og Vignir hélt tvisvar hreinu.

Eini bikarleikurinn sem Gunnar Nielsen spilaði í sumar var bikarúrslitaleikurinn á móti ÍBV sem FH tapaði 1-0. Gunnar varði reyndar margoft frábærlega frá Eyjamönnum í leiknum og bjargaði sínum mönnum frá stærra tapi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×