Fótbolti

Gat ekki stælana í Pep og hætti

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Pep raðaði inn titlum hjá Bayern en var víst ekki sá skemmtilegasti.
Pep raðaði inn titlum hjá Bayern en var víst ekki sá skemmtilegasti. vísir/getty
Fyrrum læknir FC Bayern vandar þjálfaranum Pep Guardiola ekki kveðjurnar og segir Pep vera ástæðuna fyrir því að hann hætti eftir 38 ára starf fyrir Bayern.

Sá heitir Hans-Wilhelm Muller-Wohlfart og yfirgaf félagið árið 2015. Þá hætti hann ásamt öllum sínum samstarfsmönnum eftir 3-1 tap Bayern gegn Porto í Meistaradeildinni.

Það vantaði marga lykilmenn Bayern í leiknum og Pep skellti skuldinni á læknateymið sem hann sagði ekki vera að vinna vinnuna sína.

„Ég var ekki vanur því að það væri komið fram við mig eins og Guardiola kom fram við mig. Það hafði aldrei gerst. Hann var á móti öllu og sýndi okkar vinnu engan áhuga. Bara gagnrýndi og sagði að allt væri betra á Spáni. Þá var þetta orðið leiðinlegt,“ sagði Muller-Wohlfart.

Eftir að Guardiola hafði rifist við Muller-Wohlfart þá sendi hann Thiago Alcantara í meðferð á Spáni. Treysti ekki eigin lækni.

„Það var ósanngjarnt að kenna okkur um töp og að leikmenn væru ekki tilbúnir í tíma. Þar fór Pep fram úr sjálfum sér og talaði um hluti sem hann hefur ekki hundsvit á. Okkar skylda liggur gagnvart leikmanninum og hans heilsu. Ég gat ekki meira af þessu og þess vegna hætti ég.“

Þessi frægi læknir hefur haldið áfram að sinna sumum stjörnum Bayern og Usain Bolt hefur einnig nýtt sér þjónustu hans þegar hann er í Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×