Handbolti

Fyrstu leikir tímabilsins verða Evrópuleikir hjá Val, FH og Aftureldingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valsmenn spila tvo Evrópuleiki áður en þeir hefja titilvörnina.
Valsmenn spila tvo Evrópuleiki áður en þeir hefja titilvörnina. Vísir/Ernir
Þrjú íslensk lið, sem taka þátt í Evrópukeppninni í vetur, þurfa að spila sína fyrstu Evrópuleiki áður en Íslandsmótið hefst.

Valur, FH og Afturelding verða því búin að spila tvo Evrópuleiki þegar kemur að fyrstu umferð Olís-deildar karla.

Öll þrjú liðin taka þátt í EHF-bikarnum og eru leikirnir í fyrstu umferð forkeppninnar.

Afturelding mætir norska félaginu Bækkelaget. Fyrri leikurinn er á heimavelli Mosfelling á Varmá 2. september en sá síðari viku síðar í Osló í Noregi.

Íslands- og bikarmeistarar Valsmanna lentu á móti ítalska félaginu SSV Bozen Loacker Volksbank en báðir leikirnir verða spilaðir hér á landi. Leikirnir við Bozen fara fram 9. og 10. september í Valshöllinni.

FH-liðið mætir síðan tékkneska félaginu HC Dukla Prag. Fyrri leikurinn er í Tékklandi 3. september en síðari í Kaplakrika 9. september.

Þetta er í annað skiptið sem FH spilar við tékkneska félagið Dukla Prag í Evrópukeppni en bæði Þróttur og Víkingur léku einnig gegn  liðinu á sínum tíma eða þegar það var eitt sterkasta handboltafélag Evrópu.

Petr Baumruk lék auðvitað með Dukla Prag í Tékklandi á sínum ferli og á sjötta áratugnum spiluðu þar bestu handboltamenn heims eða þeir Rudolf Havlík,  Václav Duda og Vojtech Marez. Rudolf Havlík var síðar þjálfari Víkings og HK hér á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×