Innlent

Umdeilt flutningaskip við bryggju í Hafnarfirði

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Flutningaskipið Winter Bay er við höfn í Hafnarfjarðarhöfn. Skipið hefur farið í nokkra umdeilda leiðangra.
Flutningaskipið Winter Bay er við höfn í Hafnarfjarðarhöfn. Skipið hefur farið í nokkra umdeilda leiðangra. Vísir
Flutningaskipið Winter Bay er nú við höfn í Hafnarfjarðarhöfn þar sem verið er að ferma skipið af hvalkjöti. Hvalur hf. hefur átt í vandræðum með að koma hvalkjöti til Japans á undanförnum árum og hafa skip með hvalkjöt frá fyrirtækinu þurft að fara óhefðbundnar siglingarleiðir til að koma því til hafnar Japans.

Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals, sagði í febrúar á síðasta ári að fyrirtækið myndi ekki veiða neina hvali þá um sumarið vegna þess hve illa hefði gengið að koma hvalaafurðum á markað í Japan. Kristján hefur, samkvæmt heimildum Vísis, verið viðstaddur í Hafnarfirði þegar skipið hefur verið fermt.

Dæmi um að kjötið hafi endað í hundamat í Japan

Samkvæmt merkingum á pakkningum sem verið er að flytja um borð í skipið er þar um að ræða hvalkjöt af langreyðum. Skipið Winter Bay getur flutt um 2.000 tonn, samkvæmt uppýsingum á vefnum Marine Traffic.

Árið 2015 var lagt í fremur óhefðbundinn leiðangur til að freista þess að koma hvalkjöti á markað í Japan. Þá var það sama skip, Winter Bay, sem fór með kjötið norðurleiðina í gegnum Norður-Íshafið, meðfram ströndum Noregs og Rússlands. Hvali hf. hefur síðan gengið illa að koma kjötinu á markað í Japan en þá eru þess dæmi að kjötið hafi endað í hundamat þar í landi.



Verið er að ferma skipið af hvalkjöti í Hafnarfjarðarhöfn.Vísir
Fór siglingaleið fyrir umdeildan farm

Árið áður, árið 2014, fór skipið Alma með 2.000 tonn af langreyðakjöti frá fyrirtækinu frá Hafnarfirði til Japan. Skipið fór hins vegar ekki hina hefðbundnu flutningaleið milli Evrópu og Japan í gegnum Miðjarðarhaf. Þess í stað sigldi skipið suður með ströndum Afríku sem er afar saldgæf siglingarleið og er hún helst farin þegar verið er að flytja umdeildan farm.

Til stóð að skipið kæmi við í borginni Durban í Suður-Afríku en þar var komu skipsins mótmælt. Fréttamiðlar þar í landi sögðu að vegna þessa hafi skipið hætt við að koma til hafnar í borginni til að taka vistir. Þess í stað fór skipið að Port Louis, höfuðborg Máritíus til að taka vistir.

Sumarið 2013 sneru yfirvöld í Hamborg og Rotterdam þremur gámum fullum af langreyðakjöti til baka til Íslands.

Veiðarnar gagnrýndar úr mörgum áttum


Hvalveiðar fyrirtækis Kristjáns, sem er það eina sem stundað hefur hvalveiðar við Íslandsstrendur síðastliðin ár, hafa verið í meira lagi umdeildar. Fyrrverandi Bandaríkjaforseti hefur gagnrýnt þær, Gunnar Bragi Sveinsson fyrrverandi utanríkisráðherra sagði þær skaða ímynd Íslands og erlendir tölvuþrjótar geruðu ítrekað árásir á íslenskar vefsíður í mótmælaskyni við þær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×