Enski boltinn

Everton og Swansea búin að semja um kaupverð: Gylfi í læknisskoðun í fyrramálið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. vísir/getty
Everton og Swansea hafa gengið frá samkomulagi um kaupverð á Gylfa Þór Sigurðssyni. Hann gengst undir læknisskoðun hjá Everton í fyrramálið. Þetta herma heimildir Vísis.

Gylfi hefur verið undir smásjá Everton síðustu vikur og mánuði en Swansea hefur nú þegar hafnað tveimur tilboðum frá Everton í íslenska landsliðsmanninn. Aðilar hafa hins vegar rætt saman í vikunni og komust að samkomulagi um kaupverð í kvöld.

Samkvæmt heimildum Vísis nemur kaupverðið rúmum 40 milljónum punda. Everton greiðir langstærstan hluta kaupverðsins strax en afganginn þegar Gylfi uppfyllir ákveðin samningsatriði.

Ljóst er að Gylfi verður með þessu langdýrasti íslenski knattspyrnumaður sögunnar. Hann er 27 ára og á að baki 50 leiki með íslenska landsliðinu og hefur skorað í þeim fimmtán mörk. Gylfi Þór er lykilmaður í íslenska landsliðinu sem fór í 8-liða úrslit á EM í Frakklandi og er á toppi síns riðils í undankeppni HM 2018 ásamt Króatíu.

Everton ætlar sér stóra hluti á leiktíðinni en liðið hefur styrkt leikmannahóp sinn mikið í sumar, þrátt fyrir að hafa selt framherjann Romelu Lukaku til Manchester United. Wayne Rooney sneri aftur til Everton, uppeldisfélagsins, og félagið festi einnig kaup á Davy Klaassen, Michael Keane, Sandro Ramirez og Henry Onyekuru.

Everton vann um helgina Stoke, 1-0, í fyrstu umferð nýs tímabils í ensku úrvalsdeildinni. Wayne Rooney skoraði sigurmark liðsins.

Gylfi hóf atvinnumannaferilinn hjá Reading en hefur einnig leikið með Hoffenheim og Tottenham, auk þess sem hann á láni hjá Shrewsbury og Crewe snemma á ferlinum.


Tengdar fréttir

Ronald Koeman um Gylfa: Við erum ekki að flýta okkur

Bæði knattspyrnustjóri Swansea City, Paul Clement, og knattspyrnustjóri Everton, Ronald Koeman, tjáðu sig í dag um stöðuna á viðræðum Everton og Swansea um kaup á íslenska landsliðsmanninum Gylfa Þór Sigurðssyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×