Viðskipti innlent

Ný útlán lífeyrissjóðanna þrettánfaldast

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Útlán lífeyrissjóðanna halda áfram að aukast. Vísir/Valli
Útlán lífeyrissjóðanna halda áfram að aukast. Vísir/Valli Vísir
Ný útlán lífeyrissjóðanna til sjóðfélaga hafa meira en þrettánfaldast á undanförnum tveimur árum. Útlánin námu 67,3 milljörðum króna í 3.593 samningum á fyrstu sex mánuðum þessa árs borið saman við tæpa 5,0 milljarða króna í 523 samningum fyrstu sex mánuði ársins 2015.

Í júnímánuði lánuðu sjóðirnir 14,3 milljarða króna, en það er hæsta upphæð sem sjóðirnir hafa lánað í einum mánuði. Fyrra metið var í mars síðastliðnum, þegar þeir lánuðu 13,5 milljarða.

Á milli ára jukust útlán lífeyrissjóðanna um 74,4 prósent, en þau námu 38,6 milljörðum króna í 2.470 samningum á fyrri helmingi síðasta árs.

Meðalupphæð hvers samnings hefur verið 18,7 milljónir króna það sem af er ári borið saman við 15,6 milljónir króna á sama tíma í fyrra.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×