Viðskipti innlent

Hagnaður 365 eykst

Haraldur Guðmundsson skrifar
vísir/anton
Rekstrarhagnaður 365 miðla fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) á fyrri hluta yfirstandandi árs nam 563 milljónum króna. Um umtalsvert betri afkomu er að ræða en á sama tímabili í fyrra, þegar hún var jákvæð um 309 milljónir króna, en hagnaður eftir skatta á fyrri hluta árs nam 195 milljónum sem var 273 milljóna viðsnúningur.

Samkvæmt tilkynningu 365 miðla, eiganda Fréttablaðsins, nam hagnaðurinn í fyrra 17 milljónum króna. Árið 2015 var afkoman jákvæð um 22 milljónir. Tekjurnar í fyrra námu 11,1 milljarði og rekstrarhagnaður alls 823 milljónum. Áætlanir 365 miðla gera ráð fyrir að hagnaður yfirstandandi árs verði umtalsvert meiri en árið 2016. Viðsnúning í rekstri megi helst rekja til bættrar afkomu í rekstri ljósvakamiðla, netmiðla og aukinnar áherslu á vörusölu.

„Rekstrarárangur 365 á fyrri hluta þessa árs er ánægjulegur og eftirtektarverður, ekki síst í ljósi þess að íslensk, frjáls fjölmiðlun á verulega undir högg að sækja um þessar mundir. Kemur þar einkum tvennt til; mikil umsvif ríkisins á auglýsingamarkaði, og innkoma erlendra efnisveitna, sem lúta ekki sömu lögmálum og innlendir einkareknir fjölmiðlar og starfa m.a. frjálsir án afskipta fjölmiðlanefndar. 365 miðlar búa hins vegar að öflugu vöruframboði og frábæru starfsfólki – framtíðin er því björt,“ segir Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir, forstjóri 365 miðla. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×