Fótbolti

Barcelona að klófesta Dembélé

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ousmane Dembélé var valinn nýliði ársins í þýsku úrvalsdeildinni í fyrra.
Ousmane Dembélé var valinn nýliði ársins í þýsku úrvalsdeildinni í fyrra. vísir/getty
Samkvæmt spænskum fjölmiðlum hefur Barcelona náð samkomulagi við Borussia Dortmund um kaup á franska ungstirninu Ousmane Dembélé.

Talið er að Barcelona borgi Dortmund 90 milljónir punda fyrir hinn tvítuga Dembélé. Ofan á það gætu bæst um 30 milljónir punda vegna frammistöðu Frakkans með Börsungum.

Barcelona hugsar Dembélé sem eftirmann Neymars sem var seldur fyrir metverð til Paris Saint-Germain á dögunum.

Dembélé gekk til liðs við Dortmund frá Rennes síðasta sumar. Hann átti afar gott tímabil með Dortmund í fyrra og varð bikarmeistari með liðinu. Þá var hann valinn nýliði ársins í þýsku úrvalsdeildinni og í lið ársins.

Barcelona mætir Real Madrid í seinni leik liðanna um spænska Ofurbikarinn í kvöld. Á sunnudaginn fær Barcelona svo Real Betis í heimsókn í 1. umferð spænsku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×