Erlent

Merkel mætir í viðtal til fjögurra YouTube-stjarna

Atli Ísleifsson skrifar
Angela Merkel hefur nú stýrt Þýskalandi í tólf ár.
Angela Merkel hefur nú stýrt Þýskalandi í tólf ár. Vísir/AFP
Angela Merkel Þýskalandskanslari reynir nú að höfða til ungra kjósenda í aðdraganda þingkosninga í landinu í haust. Kanslarinn mun í dag mæta í viðtal til fjögurra af stærstu YouTube-stjörnum Þýskalands.

MrWissen2Go, ItsColeslaw, Ischtar Isik og AlexiBexi munu allir fá tíu mínútur hver til að spjalla við og spyrja kanslarann spjörunum úr. Saman eru þeir með um þrjár milljónir áskrifenda á YouTube þar sem þeir taka ýmis samfélagsmál til umfjöllunar og fjalla um allt frá fegrunarráðum til prófana á hvers kyns græjum.

Merkel vakti mikla athygli fyrir um tveimur árum þegar YouTube-stjarnan LeFloid tók viðtal við kanslarann. Rúmlega fimm milljónir manna sáu myndbandið.

Þjóðverjar ganga til þingkosninga sunnudaginn 24. september. Flokkur Merkel, Kristilegir demókratar, og systurflokkar hans, mælast í könnunum með öruggt forskot á Jafnaðarmannaflokk Martin Schulz.

Merkel virðist einnig njóta meiri vinsælda meðal yngri kjósenda en Schulz. Samkvæmt könnun Forsa vilja 57 prósent ungra kjósenda að Merkel haldi áfram í stóli kanslara, en hún hefur nú stýrt landinu í tólf ár.

Kristilegir demókratar og Jafnaðarmenn mynda nú saman ríkisstjórn í Þýskalandi.

Að neðan má sjá viðtal LeFloid við Merkel.


Tengdar fréttir

Merkel með öruggt forskot í könnunum

Skoðanakannanir sýna bandalag Angelu Merkel kanslara með fjórtán prósentustiga forskot á Sósíaldemókrata þegar einn og hálfur mánuður er til kosninga.

Schulz mun sitja sem fastast

Martin Schulz, kanslaraefni þýska Jafnaðarmannaflokksins, mun ekki segja af sér formannsembætti í flokknum jafnvel þótt flokkur hans tapi í þingkosningum næsta mánaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×