Erlent

Leikari í Game of Thrones hvetur fólk til að kaupa ekki husky hund í bríaríi

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Peter Dinklage segir mikla vinnu felast í því að eiga hund. Þá talar hann jafnframt fyrir hönd PETA samtakanna sem hafa tjáð áhyggjur sínar vegna málsins.
Peter Dinklage segir mikla vinnu felast í því að eiga hund. Þá talar hann jafnframt fyrir hönd PETA samtakanna sem hafa tjáð áhyggjur sínar vegna málsins. Vísir/AFP
Husky hundar, eða sleðahundar, hafa verið vinsæl gæludýr um heim allan undanfarin ár þá sér í lagi hjá aðdáendum þáttanna Game of Thrones. Í þáttunum koma fyrir úlfar sem leika lykilhlutverk í þáttunum.

Peter Dinklage, einn af aðalstjörnum þáttanna, varar þó aðdáendur við að fjárfesta í husky hundum en þess lags hundar eru taldir vera hvað líkastir úlfunum í GOT. Segir hann að fólk verði að gera sér grein fyrir því að mikil vinna fylgi því að eiga slíkan hund.

Dinklage segir að margir þessara hunda, sem urðu vinsælir vegna tískubylgjunnar í kringum þættina, séu vanræktir og að eigendur þeirra gefist fljótt upp á þeim.

„Dýraathvörf hafa tilkynnt að margir husky hundar séu yfirgefnir, eins og gerist oft þegar hundur er keyptur í bríaríi, án þess að skilja fyllilega þeirra þarfir,“ er haft eftir Dinklage sem hvetur fólk fremur til að taka að sér hunda í athvörfum.

Husky-hundar eru ekki ósvipaðir úlfunum sem leika stóra rullu í Game of Thrones.Vísir/AFP
Gríðarleg aukning

PETA samtökin, sem berjast fyrir réttindum og verndun dýra, hafa tekið saman tölur yfir aukningu yfirgefna hunda af þessari tegund. Samtökin vilja meina að fólk yfirgefi hundana þegar nýja brumið sé farið og þegar fólk uppgötvar vinnuna að baki því að sjá um hundinn.

Frá því GOT hófu göngu sína árið 2011 hefur husky hundum fjölgað um 700 prósent í breskum dýraathvörfum. Talið er að á bilinu 10 til 81 hundur sé yfirgefinn árlega. Þá má sjá svipaða þróun í Norður- Kaliforníu í Bandaríkjunum.

Í frétt Yahoo má sjá að hundamyndir á borð við 101 Dalmatíuhund og Legally Blonde höfðu sömu áhrif á neytendur sem keyptu sér dalmatíuhunda og chihuahua hunda í stórum stíl en gáfust loks upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×