Innlent

Breiðhyltingar lögðust á eitt og fundu stolna vespu Freys

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Freyr Alexandersson þakkar kærlega fyrir aðstoðina og segist glaður með að vera kominn aftur með vespuna í hendurnar.
Freyr Alexandersson þakkar kærlega fyrir aðstoðina og segist glaður með að vera kominn aftur með vespuna í hendurnar. Vísir/Getty
Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, varð fyrir því óláni aðfaranótt mánudags að vespunni hans og fjölskyldunnar var stolið.

Freyr og kona hans tilkynntu lögreglu um stuldinn eftir hádegi samdægurs og birtu einnig auglýsingu inn á Facebookhóp íbúasamtaka Breiðholts og þar kom samkennd íbúanna svo sannarlega í ljós en margir íbúar í Breiðholti létu sig málið varða og deildu færslu Freys.

„Þegar ég er á leiðinni niður á lögreglustöð til að gefa skýrslu 20 mínútum seinna þá hringir árvökull Breiðhyltingur í okkur og lætur okkur vita að hann sé búinn að finna vespuna fyrir utan húsið sitt. Þetta tók ekki nema 20 mínútur. Hann beið þarna eftir mér fyrir framan vespuna og það var ekkert búið að skemma hana neitt. Þetta gat eiginlega ekki endað betur,“ segir Freyr í samtali við Vísi og nefnir að hann hafi verið afar þakklátur fyrir aðstoðina.

„Ég er aðallega bara ánægður með samstöðuna og það að hafa fengið aftur vespuna,“ segir Freyr og nefnir að hann og kona hans noti vespuna töluvert mikið þegar vel viðrar. Hins vegar sé ekki eins notalegt að þeysast um á vespunni í rigningu og roki.  Freyr var búinn að eiga vespuna í eitt og hálft ár.

Freyr segist aldrei hafa lent í svona aðstæðum áður.

„Ég er búinn að búa nánast alla ævi í Breiðholti og ég hef aldrei lent í neinu slíku áður,“ segir Freyr og nefnir að það sé gífurleg samstaða í hverfinu og vinalegt andrúmsloft.

Freyr segir að málið sé í rannsókn og lögregla hafi tekið við keflinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×