Enski boltinn

Gylfi hlaðinn lofi af blaðamanni Guardian

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi fagnar í leik með Swansea.
Gylfi fagnar í leik með Swansea. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson er hæfileikaríkur vinnuþjarkur sem er bæði peninganna og biðarinnar virði fyrir Everton, hans nýja félag. Þetta segir Stuart James, pistlahöfundur í enska blaðinu Guardian.

James rekur sögu Gylfa og aðdraganda félagaskipta hans til Everton en fréttir bárust af því í gærkvöldi að félagið hefði loksins komist að samkomulagi við Swansea um kaupverð.

Hann er sagður hafa verið í afar miklum metum hjá stuðningsmönnum Swansea enda sópað að sér verðlaunum á uppgjörshátíðum síðustu tveggja tímabila. Gylfi var það mikilvægur í liði Swansea á síðasta tímabili að nánast ómögulegt er að hugsa sér að liðið hefði haldið sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni án hans.

Mögulega þó séu þó einhverjir stuðningsmanna Swansea óánægðir með þá ákvörðun Gylfa að fara ekki með liðinu í æfingaferð til Bandaríkjanna. Æfingaleikur gegn Barnet 12. júlí reyndist síðasti leikur Gylfa fyrir Swansea en hann var fyrirliði liðsins í þeim leik.

James rekur einnig alla þá tölfræði sem sýnir Gylfa í því ljósi að þar fer einn allra besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar. En þar að auki hversu hæglátur hann er, duglegur og samviskusamur. Allt þetta geri það að verkum að upphæðin sem Everton greiðir fyrir hann, sem gæti náð 45 milljónum punda, auk þess sem að viðræður við Swansea drógust mjög svo á langinn geri það verkum að Gylfi sé bæði peninganna og biðarinnar virði.

Greinina alla má lesa á heimasíðu Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×