Innlent

Maður hótaði að skjóta fólk í Hafnarfirði

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð á staðinn.
Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð á staðinn. Vísir/Eyþór
Sérsveit lögreglu var send, ásamt lögreglu og slökkviliði, að skrifstofuhúsnæði við Cuxhavengötu í Hafnarfirði á öðrum tímaum í dag eftir að leigjandi í húsinu hótaði að vinna fólki mein með skotvopni. Þetta kemur fram í frétt á vef RÚV.

Sævar Guðmundsson, varðstjóri hjá lögreglu segir í samtali við RÚV að maðurinn hafi hringt á Neyðarlínuna og tilkynt um vatnsleka og að ef hann fengi ekki senda aðstoð vegna lekans myndi hann grípa til skotvopnsins.

Maðurinn var handtekinn og „eitt og annað“ fannst við húsleit hjá honum, að sögn Sævars. Sævar vildi, í samtali við RÚV, ekki tjá sig um hvort maðurinn hafi í raun verið með vopn í fórum sínum eins og hann sagði.

Í frétt Fjarðarfrétta segir að götunni hafi verið lokað af um tíma. Starfsfólki í húsinu var síðar vísað út og fékk einn upplýst að sprengihætta gæti verið í norðurhluta fjórðu hæðar. Sævar vildi ekki tjá sig um það að svo stöddu.

Uppfært 16:20:

Lögreglan er enn að störfum á vettvangi. Sævar Guðmundsson segir í samtali við fréttastofu að það sé líklega rétt að fólki hafi verið vísað út úr byggingunni á meðan húsleit hafi farið þar fram. 

„Það fylgdi þessari innhringingu til neyðarlínu að beita skotvopni, þess vegna var það gert. Hann hótaði aldrei fólki á staðnum beint, heldur hafði hann einungis í þessum hótunum í gegnum símann," segir Sævar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×