Sport

Conor og Mayweather berjast í minni hönskum en til stóð

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Það er allt sérstakt við þennan bardaga. Líka hanskarnir enda gefin sérstök undanþága.
Það er allt sérstakt við þennan bardaga. Líka hanskarnir enda gefin sérstök undanþága. vísir/getty
Íþróttasamband Nevada samþykkti á fundi sínum í dag að gera undanþágu í bardaga Conor McGregor og Floyd Mayweather og leyfir þeim að berjast í minni hönskum en þeir eiga að gera miðað við þyngdarflokk.

Það var búið að ákveða að bardaginn yrði með 10 únsu hönskum en á fundinum í dag var farið fram á að kapparnir mættu berjast með 8 únsu hanska. Léttari hanskar og ekki eins þykkir. Það var einróma samþykkt þar sem bardaginn væri sérstakur.

Conor hafði upprunalega sagt að hann ætlaði að klára Floyd í fjórum lotum en með léttari hönskum myndi það taka hann í mesta lagi tvær lotur.

Þessi hugmynd að fara í minni hanska kom óvænt frá Mayweather eftir að Conor hafði strítt honum á því að hann hefði krafist þess að fara í þykka hanska.

Owen Roddy, hnefaleikaþjálfari Conors, sagði að það hefðu verið mistök hjá Floyd að gefa þetta eftir. Upprunalega hugmyndin kom samt frá Gunnari Nelson í viðtali við Vísi í byrjun febrúar. Þá sagði hann það vera gáfulegt til þess að jafna leikinn aðeins.

Þessi hanskastærð er samt stærðin sem Floyd þekkir best enda hefur hann unnið 48 af 49 bardögum sínum í þessari hanskastærð.

Á fundi íþróttasambandsins í dag fékk Conor einnig formlegt hnefaleikaleyfi. Ekki seinna vænna þar sem það eru tíu dagar í bardagann.

Bardaginn verður í beinni á Stöð 2 Sport. Hægt er að kaupa áskrift á 365.is.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×