Innlent

Færri sækja um störf með reykvískum börnum en í fyrra

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vísir/Vilhelm
Enn á eftir að ráða í 119 stöðugildi í leikskólum, 58 stöðugildi í grunnskólum og í um 135 stöðugildi á frístundaheimilum Reykjavíkurborgar.

Á sama tíma í fyrra átti eftir að ráða í tæp 102 stöðugildi í leikskólum borgarinnar, 43 stöðugildi í grunnskólum og 127 stöðugildi í frístundaheimilum/sértækum félagsmiðstöðvum.

Þó segir á vef borgarinnar að „miklar hreyfingar“ séu í ráðningum þessar vikurnar. Á skrifstofu skóla- og frístundasviðs sé unnið náið með þeim stjórnendum leikskóla þar sem líkur eru á að einhverjar breytingar verði á þjónustu vegna manneklu.

Í 64 leikskólum Reykjavíkurborgar er óráðið í 14 stöðugildi deildarstjóra, tæplega 75 stöðugildi leikskólakennara og 19 stöðugildi stuðningsfulltrúa.

Gengur betur að ráða í störf með fötluðum

Í grunnskólum borgarinnar, sem eru 34 talsins, á enn eftir að ráða 18 grunnskólakennara, 17 stuðningsfulltrúa og 16 skólaliða. Á vef Reykjavíkurborgar er jafnframt tiltekið að enn sé óráðið í þrjú og hálft stöðugildi þroskaþjálfa og fjögur stöðugildi í mötuneytum.

Þá er staðan í ráðningarmálum hjá frístundaheimilunum sambærileg og á sama tíma í fyrra. Í heildina vantar um 262 starfsmenn í 135,4 stöðugildi og er yfirleitt er um 50% störf að ræða.

Þó gengur betur að ráða í störf með fötluðum börnum og ungmennum miðað við sama tíma í fyrra að sögn borgarinnar, en þó vantar enn 64 starfsmenn.

„Yfirleitt kemur kippur í ráðningar þegar háskólanemar fá sínar stundarskrár en margir þeirra eru í hlutastörfum á frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×